Search
Close this search box.

Þjóðgarðurinn okkar

Deildu 

.Vatnajökulsþjóðgarður er lýðræðislegasta ríkisstofnun landsins sem er engri annarri lík í stjórnsýslunni. Fyrir 14 árum, þegar lögin um Vatnajökulsþjóðgarð voru samþykkt á Alþingi, þótti þessi nálgun tímamót í stjórnun og umsýslu náttúruverndarsvæða og þykir enn.

Stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins tryggir að stjórnun og stefnumótun hvers svæðisins er heima í héraði, næst fólkinu sem nýtir og þekkir best til. Svæðisráð eru á hverju fjögurra rekstrarsvæða þjóðgarðsins og situr formaður hvers svæðisráðs jafnframt í stjórn þjóðgarðsins sem hefur m.a. það hlutverk að samræma og samþætta á milli ólíkra rekstrarsvæða. Samráð og samvinna við ólíka hagsmunaaðila hefur ávallt verið hornsteinn verkefnisins.

Vatnajökulsþjóðgarður býr yfir öflugum og traustum mannauði hvort sem litið er til starfsmanna sem starfa í þjóðgarðinum árið um kring eða yfir háannatímann. Langflest lausráðinna starfsmanna kjósa að koma til starfa ár eftir ár. Ársverkin telja nú 55 talsins og þar af eru 35 heilsársstarfsmenn og 60% eru konur. Heilsársstarfsfólki hefur fjölgað um 15 á þessu kjörtímabili þ.a.l. fjöldi opinberra starfa úti á landi. Af þessum 55 ársverkum eru 4,5 stöðugildi í Garðabæ svo allt tal um það að störfin séu fyrir sunnan er hjóm eitt. Tölurnar tala sínu máli, þ.e.a.s. heilsársstarfsfólki hefur fjölgað um 15 á þessu kjörtímabili, úr 20 í 35.

Á austursvæði þjóðgarðsins starfa tvær háskólamenntaðar konur sem báðar eru að austan og þekkja svæðið vel en ákall hefur verið eftir störfum fyrir menntaðar konur á Austurlandi í mörg ár. Í ár bættist þriðji fasti starfsmaðurinn við sem er að ljúka doktorsprófi og bókari stofnunarinnar situr í Fellabæ.

Helstu markmið Vatnajökulsþjóðgarðs eru náttúrvernd, fræðsla og atvinnuuppbygging. Starfsfólk þjóðgarðsins hefur breiða menntun enda er hlutverk þjóðgarðs margþætt og krefst víðtækrar reynslu og menntunar. Í svæðisráðum situr sveitarstjórnarfólk úr héraði; bændur, útivistarfólk, veiðimenn, ferðaþjónustuaðilar- allt saman fólk sem þekkir sín heimasvæði. Það stenst því ekki skoðun að halda því fram að garðinum sé stjórnað af EXCEL-fólki í Reykjavík.

Á síðustu 14 árum hefur Vatnajökulsþjóðgarður eflt byggðirnar sem hann tilheyrir með afleiddum störfum. Á austursvæði var gestastofan á Skriðuklaustri byggð af verktökum heima í héraði, Snæfellsskáli og Lindarsel voru keypt af Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, göngubrú var byggð yfir Volgu í Kverkfjöllum og nú er unnið að gerð göngubrúar yfir Blöndu við Geldingafell svo dæmi séu tekin. Starfsfólk þjóðgarðsins er afar stolt af nýju salerni við Snæfellsskála sem verktakar úr héraði reistu og margt lærðist á því verkefni sem nýtist í öðrum verkefnum í þjóðgarðinum.

Mikilvæg þekking ferðafélaganna á rekstri húseigna inn á hálendinu hefur verið leiðarljós í starfsemi þjóðgarðsins. Eitt skulum við þó hafa í huga. Byggingaframkvæmdir sem ferðafélög standa fyrir, eru eðli málsins samkvæmt dýrari staðsetningarinnar vegna, enda oft bornar uppi af sjálfboðavinnu. Því er allur samanburður á kostnaði við framkvæmd ferðafélags og verktaka eins og að bera saman epli og appelsínu.

Í ár voru fimm þurrsalerni smíðuð af verktaka á Egilsstöðum eftir „gömlu ferðafélagsteikningunni“. Tvö þessara þurrsalerna hafa nú þegar verið flutt inn í Krepputungu, gestum þjóðgarðsins til mikillar gleði, og hin þrjú verða flutt inn á hálendið norðan jökla síðar. Þá er unnið er að lagfæringum Snæfellsleiðar (F909), ýmissa slóða á Snæfellsöræfum og bættu aðgengi fyrir sumarakstur á Vatnajökul í samstarfi við Vegagerðina með fjármagni úr Styrkvegasjóði. Allt eru þetta mikilvæg störf sem skipta miklu máli fyrir nærsamfélagið og styðja við atvinnulífið á svæðinu.

Hjarta starfseminnar liggur í landvörslunni og fræðslunni út á svæðunum. Öflugt stoðkerfi á skrifstofu skiptir höfuðmáli svo að verkefni gangi vel fyrir sig, notendum til heilla. Sem dæmi um slík verkefni má nefna leyfisveitingar, skiltagerð auk vinnu við fræðsluefni og bæklinga. Innra starfið er mikilvægt og EXCEL-fólkið gerir öðrum kleift að vinna faglega að uppbyggingu innviða. Engum hagsmunaaðilum hefur verið bolað frá borðinu nema síður væri og hefur starfsfólk þjóðgarðsins á austursvæði lagt alúð sína í samstarf við veiðimenn, nærsamfélagið, skóla og vísindafólk.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og mikilvægi. Stjórnfyrirkomulag hans var t.a.m. fyrirmyndin í frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um Hálendisþjóðgarð.

Þjóðgarða er að finna um allan heim og hafa sumir þeirra tekið áratugi í mótun og uppbyggingu. Það er í raun eðli þjóðgarða. Þeir þróast. En markmiðið með stofnun þeirra er alltaf jafn mikilvægt; að taka frá svæði fyrir komandi kynslóðir og okkur sjálf til þess að upplifa og njóta.

Mörg þeirra mála sem VG hefur sett á oddinn í gegnum tíðina hafa þurft að marinerast í umræðunni áður en sátt og niðurstaða næst. Þannig var það með loftslagsmálin, umhverfisverndina og jafnréttið. Einhverstaðar verður samtalið að byrja og frumvörp sem fara til kynningar mótast og breytast með samráði og samtali. Það mikilvægasta er að við náum að setja regluverk um notkun hálendisins, standa vörð um tilganginn og tryggja aðkomu nærsamfélagsins að stefnumótun og vinnu við þróun svæðisins.

VG hefur ekki hvikað frá hugmyndinni um að vernda miðhálendi Íslands enda er það stórt náttúruverndarmál, hagsmunamál fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir og samfélögin sem eru svo heppin að vera með ósnortið víðerni í bakgarðinum.

Jódís Skúladóttir skipar 2. sæti fyrir VG í Norðausturkjördæmi, er veiðimaður, jeppaeigandi og náttúruverndarsinni.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search