Search
Close this search box.

Þjóðhátíðarávarp forsætisráðherra á Austurvelli

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi m.a. um krefjandi stöðu í efnahagsmálum, áskoranir tengdar gervigreind og menntamál í þjóðhátíðarávarpi sínu á Austurvelli í dag.

Forsætisráðherra sagði að verðbólguástand eins og nú er bitni alltaf verst á þeim sem síst skyldi. Þótt engar töfralausnir séu í boði sjáist þó teikn á lofti um að draga muni úr verðbólgu á næstu mánuðum. Efnahagsleg umsvif séu mikil á Íslandi, atvinnulíf gott og afkoma ríkissjóðs farið batnandi.

„En vaxandi efnahagur býr ekki til gott þjóðfélag þótt hann sé góður grunnur. Samfélagsgerðin, hvernig við umgöngumst hvert annað og hvernig við störfum og lifum saman, ræður því hvort samfélagið telst gott, hvort lífskjör í víðustu merkingu þess orðs séu góð. Við getum verið stolt yfir því sem vel hefur tekist en slíkt stolt þarf að hvíla á þeirri trú að alltaf megi gera betur,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.

Forsætisráðherra ræddi einnig um jafnréttisbaráttuna. Þótt Ísland hafi lengi verið þar í fararbroddi á alþjóðavísu sé baráttunni ekki lokið. Henni verði ekki hætt fyrr en fullu launajafnrétti sé náð, kynbundið ofbeldi og áreitni heyri sögunni til og hinni ólaunuðu vinnu verði jafnt skipt milli kynjanna.

Þá ræddi forsætisráðherra um áskoranir sem tengjast hraðri þróun gervigreindar. Þessi tækni veki spurningar um þætti á borð við menntun, vinnumarkað, pólitíska umræðu og neysluvenjur.

„En fyrst og síðast vekur hún spurningar um mennskuna, hver við erum og hver við viljum vera. Að sjálfsögðu þurfum við að skilja tæknina til að geta stýrt henni og tryggt að hún nýtist til góðra verka. En mestu skiptir að við skiljum okkur sjálf til að geta tryggt að mennskan lifi af allar þær umfangsmiklu breytingar sem nú eru að verða.“

Forsætisráðherra vísaði í orð Jóns Sigurðssonar úr ritgerð hans Um skóla á Íslandi. Þar segir Jón að öll framför mannkyns sé byggð á því að halda við því sem einu sinni er numið og láta það ganga til næstu kynslóðar. Jón taldi að menntun væri eitt af þremur lykilatriðum fyrir sjálfstæði Íslands ásamt löggjafarvaldi og verslunarfrelsi.

Forsætisráðherra minnti á að til að takast á við áskoranir á sviði umhverfismála, tæknibreytinga og fjölbreyttari samfélaga muni menntun skipta sköpum. Sjaldan hafi verið jafn mikil þörf á öflugri menntun og nú, m.a. til að mæta auknum fjölda fólks af erlendum uppruna á Íslandi.

„Fjölbreytninni fylgir fegurð og gróska en um leið kallar hún á aukinn kraft í íslenskukennslu og íslenskumenntun, kallar á fjölbreytta menntun til að tryggja að við öll getum fundið okkar tækifæri í samfélaginu og skilið hvert annað. Fátt tryggir félagslegan hreyfanleika betur en jafnt aðgengi að menntun.“

Myndir frá hátíðardagskrá á Austurvelli

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search