Search
Close this search box.

Þjónusta vegna ofbeldis: Starfshópur skilar tillögum

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, skipaði í vetur starfshóp sem falið var að skoða laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis og koma með tillögur um hvernig best megi tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða, einkum með tilliti til Istanbúlsamningsins (samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi), sem fullgiltur var á Íslandi árið 2018.

Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu til ráðherra en hún inniheldur 18 tillögur sem miða að því að tryggja þá þjónustu sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða.

Starfshópurinn leggur til fjölbreyttar aðgerðir sem fela m.a. í sér breytingar á framtíðarfyrirkomulagi þjónustu vegna ofbeldis. Sumar þeirra kalla á umtalsverðar kerfisbreytingar og má þar nefna breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og breytingar á lögum um nálgunarbönn og brottvísanir. Ein viðamesta tillaga hópsins er að komið verði á fót nýrri stofnun eða einhverri núverandi stofnun ríkisins, t.d. Jafnréttisstofu, falin eftirfylgni með stefnu stjórnvalda í ofbeldismálum, greiningarvinnu, samhæfingu aðgerða, þróun verkferla ólíkra þjónustuveitenda og þekkingaröflun og fræðslu. Þá verði jafnframt komið á skilvirku og samræmdu eftirliti og mati á stefnum og aðgerðum sem heyra undir Istanbúlsamninginn og framkvæmd þeirra.

Starfshópinn skipuðu fulltrúar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisstofu, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Við undirbúning tillagna átti starfshópurinn einnig samtöl við aðila sem veita þjónustu vegna ofbeldis eða koma að málaflokknum með einhverjum hætti. 

Þegar verið gripið til fjölmargra aðgerða

Stjórnvöld hafa undanfarin ár lagt aukna áherslu á aðgerðir gegn ofbeldi í samfélaginu. Unnið hefur verið að þeim í mjög góðu samstarfi við stofnanir, félagasamtök og fleiri aðila sem koma að málaflokknum. Má þar nefna þingsályktun til fjögurra ára um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess en hún var unnin í samstarfi fjögurra ráðuneyta með þátttöku fjölmargra hagsmunaaðila um land allt. Á vegum forsætisráðuneytisins er einnig unnið að eftirfylgd þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Þá vinnur dómsmálaráðuneytið að framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu.

Í upphafi heimsfaraldurs skipuðu þáverandi félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra sérstakt aðgerðateymi gegn ofbeldi sem falið var að móta tillögur um aðgerðir gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Í ríku samráði við hagsmunaaðila voru fjölmörg verkefni sett á laggirnar og áhersla lögð á verkefni sem fest yrðu í sessi til framtíðar. Má þar nefna frekari þróun á hlutverki Neyðarlínunnar en vefurinn 112.is gegnir nú einnig því hlutverki að vera alhliða upplýsingaveita um ofbeldi og úrræði sem standa til boða.

Þá vinnur heilbrigðisráðuneytið að ýmsum verkefnum á þessu sviði s.s. breytingum á verkferlum og samræmdri meðferð og skráningu mála. Aðgengi að þjónustu við þolendur ofbeldis hefur einnig verið aukinn. Stjórnvöld hafa komið að stofnun og starfsemi þjónustumiðstöðva en um er að ræða Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Sigurhæðir. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fjármagnar auk þess þjónustuúrræði fyrir gerendur ofbeldis.  

Þá fór sl. haust fram fyrsti landssamráðsfundurinn gegn ofbeldi en gert er ráð fyrir að fundurinn verði haldinn árlega. Á þessum fyrsta fundi var sérstök áhersla lögð á ofbeldi meðal barna og ungmenna og þverfaglegt samráð gegn heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Markmiðið með árlegum landssamráðsfundum er einkum að viðhalda vitundarvakningu um ofbeldi og stuðla að auknu samstarfi milli stjórnvalda, stofnana, frjálsra félagasamtaka og annarra sem láta sig ofbeldismál varða.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search