Search
Close this search box.

Þjónustugreiðslur vegna barna: Bylting í framkvæmd fjárhagsaðstoðar á Íslandi

Deildu 

Borgarráð samþykkti í gær breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem flestar eiga rætur sínar að rekja til tillagna stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Stýrihópurinn starfaði í umboði sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á árunum 2019-2020 og var ég í forsvari fyrir hann. Hópurinn lagði mikla áherslu á að ná víðtæku samráði, við fræðimenn, starfsmenn, notendur og fulltrúa samtaka sem hafa reynslu af því að starfa með fólki í fátækt. Hópurinn lagði til ýmsar úrbætur í þjónustu Velferðarsviðs bæði á sviði úrræða, reglna, upplýsingagjafar og samráðs. Rík áhersla var á að koma á fót þjónustugreiðslum til barna þeirra sem nutu fjárhagsaðstoðar til að tryggja þeim mikilvæga grunnþjónustu óháð efnahag foreldra.

Stærstu breytingarnar sem nú hafa verið samþykktar á reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar felast í því, að heimildagreiðslur sem hafa verið til vegna barna verða nú þjónustugreiðslur, sem verða að sjálfkrafa rétti en ekki heimild. Þannig er hægt að veita börnum notenda fjárhagsaðstoðar ákveðna grunnþjónustu á vegum borgarinnar. Þjónustugreiðslurnar duga fyrir allt að átta tíma dvöl á leikskóla ásamt fæðisgjaldi, dvöl á frístundaheimili fimm daga í viku ásamt síðdegishressingu og skólamat fyrir hvert barn notenda fjárhagsaðstoðar.

Greiningar velferðarsviðs sýndu að fyrirkomulagið sem hefur verið við lýði varðandi heimildagreiðslur vegna barna, hamlaði notendum að sækja rétt sinn, þar sem fyrst þurfti að leggja út fyrir kostnaði og fá síðan hluta hans endurgreiddan. Fyrstu sex mánuði ársins 2019 nýttu einungis 41% foreldra á fjárhagsaðstoð heimildagreiðslur vegna barna. Með nýju fyrirkomulagi verður hægt að tryggja öllum notendum þjónustugreiðslur með skilvirkum hætti og börnum þeirra mikilvæga grunnþjónustu. Hér er um að ræða algjörlega nýja nálgun í framkvæmd fjárhagsaðstoðar hér á landi, barnmiðaða nálgun, þar sem litið er á sjálfstæðan rétt barna til þjónustu.

Þjónustugreiðslur vegna barna er bylting í framkvæmd fjárhagsaðstoðar hér á landi þar sem unnið er með hagsmuni og velferð barna að leiðarljósi. Þessarri mikilvægu breytingu ber að fagna enda mikilvægt skref í átt að barnvænna og betra samfélagi.

Elín Oddný Sigurðardóttir er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search