Search
Close this search box.

Þríeykið: Hálendisþjóðgarður, Þjóðgarðsstofnun og rammaáætlun

Deildu 

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að senda frumvörp umhverfis- og auðlindaráðherra um Hálendisþjóðgarð og stofnun Þjóðgarðsstofnunar og þingsályktunartillögu um 3. áfanga rammaáætlunar til stjórnarflokkanna til afgreiðslu.

Á miðhálendi Íslands eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og innan þess eru ómetanlegar náttúru- og menningarminjar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að land í sameign þjóðarinnar innan miðhálendislínu verði gert að þjóðgarði. Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um 30% af öllu landinu, en um helmingur svæðisins nýtur nú þegar verndar. Má þar nefna Vatnajökulsþjóðgarð, Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Landmannalaugar og Hveravelli.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og hefur undirbúningur vegna málsins staðið yfir undanfarin ár, m.a. var nefnd þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, falið að skilgreina mörk þjóðgarðsins og setja fram áherslur um skiptingu landsvæða innan hans í verndarflokka. Nefndin skilaði skýrslu sinni um málið í lok síðasta árs og voru frumvörp um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í desember 2019. Frá þeim tíma hefur ráðherra átt víðtækt samráð og samtal um frumvörpin  m.a. með fulltrúum þeirra sveitarstjórna sem eiga land að miðhálendinu.

Gert er ráð fyrir að núverandi virkjanasvæði á miðhálendinu verði skilgreind sem jaðarsvæði og er lagt til að þau verði ekki friðlýst sem hluti Hálendisþjóðgarðs.

Frumvarp um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða felur í sér að komið verði á fót einni stofnun sem fari með lögbundin verkefni sem nú eru á hendi þriggja stofnana, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og þess hluta Umhverfisstofnunar sem fer með málefni náttúruverndar. Stofnunum mun því fækka um eina.

Markmiðið með sameiningunni er m.a. að efla enn frekar og samhæfa starf sem varðar sameiginleg verkefni þessara stofnanna. Sýnt er að umfang málaflokksins mun fara vaxandi á næstu árum, en þjóðgarðar og náttúruverndarsvæði eru á meðal fjölsóttustu ferðamannastaða landsins og fela í sér margvísleg tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar sem mikilvægt er að nýta þannig að ekki hljótist tjón af. Fjárhags- og rekstrarlegir hagsmunir eru því miklir.

Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður, eins og aðrir þjóðgarðar, verði sjálfstæð eining innan Þjóðgarðastofnunar.

Þingsályktunartillaga um 3. áfanga rammaáætlunar er óbreytt frá tillögum sem lagðar voru fram á  146. og 145. löggjafarþingi, en ekki voru afgreiddar. Þar er að finna tillögur til umfjöllunar og ákvarðanatöku Alþingis um virkjanakosti sem ýmist eru flokkaðir í nýtingar-, verndar- eða biðflokk.

„Stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar fram til þessa. Um er að ræða stórbrotið landsvæði í sameign okkar allra sem er einstakt á heimsvísu. Ég er líka sannfærður um að þjóðgarður á hálendinu muni skapa einstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn og verða lykilatriði þegar kemur að markaðssetningu ferðaþjónustunnar erlendis og skipti þannig miklu máli við uppbyggingu þeirrar mikilvægu atvinnugreinar að nýju. Kórónuveiran hefur leikið greinina grátt og því er mikilvægt að búa nú í haginn. Það gerum við líka með því að koma á fót öflugri stofnun, Þjóðgarðastofnun, sem færi með málefni allra náttúruverndarsvæða í landinu“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search