Search
Close this search box.

Þrjár óskir fyrir 2020

Deildu 

Orðið „áskoranir“ skýtur oft upp kollinum í stjórnmálatali en þær geta líka farið saman við óskir, ekki síst þegar nýtt ár rennur upp. Af því sem er fyrirséð mun að minnsta kosti þrennt ögra stjórnmálalífinu á þessu ári.

Rétt eins og á árinu 2019 verður loftslagsváin risavaxin áskorun. Stjórnvöld munu leggja fram uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlun Íslands var kynnt haustið 2018. Með verkefnum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis sem eru þegar farin af stað munum við binda 50% meira kolefni en nú er gert á hverju ári árið 2030. Þegar opinberir styrkir til uppsetningar hraðhleðslustöðva um landið allt voru kynntir tók atvinnulífið rækilega við sér en alls má gera ráð fyrir um hálfum milljarði í fjárfestingu í hleðslustöðvum á komandi ári. Þá kynnti ríkið stóraukna fjárfestingu í almenningssamgöngum í gegnum borgarlínuverkefnið, ákveðið var að forgangsraða fjármunum í rannsóknir á loftslagsmálum og stofnaður var nýr samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs, Grænvangur, um loftslagsmál. Kynntar voru nýjar grænar ívilnanir og grænir skattar. Í þessum málaflokki er tími aðgerða löngu runninn upp. Ísland getur lagt sitt lóð á vogarskálar og haft raunveruleg áhrif með aðgerðum, rannsóknum og nýsköpun. Ósk mín fyrir Ísland er að þessar aðgerðir fari að skila árangri og við setjum okkur áfram metnaðarfull markmið í baráttunni við þessa miklu ógn.

Tæknibreytingar munu hafa áhrif á vinnumarkað, samfélag og stjórnmál. Á árinu sem var að líða var kynnt skýrsla um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar á íslenskt samfélag sem unnin var á vegum forsætisráðuneytisins. Þar kom meðal annars fram að miklar líkur eru á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar en á bak við þessi prósent eru um 54 þúsund einstaklingar. Þá er því spáð að 58% starfa taki töluverðum breytingum en einungis 14% starfa breytist lítið. Ljóst er að áhrifin verða mismunandi fyrir karla og konur og sömuleiðis mun búseta skipta máli. Þar kom einnig fram að Ísland er tæknilega vel í stakk búið til að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni en við getum gert margt til að taka forystu og tryggja að tæknin skapi tækifæri fyrir okkur öll. Von er á tillögum að aðgerðum en þar þarf að líta til menntunar og rannsókna, hvernig ágóðinn af tækniframförum skilar sér til almennings og hvaða áhrif tæknibreytingar hafa haft á lýðræðislega umræðu og fjölmiðlun. Ljóst er að efla þarf fræðslu og umræðu um áhrif tæknibreytinga á samfélag og samskipti því nú þegar hefur tæknin breytt því hvernig við tölum saman. Ósk mín er sú að við tökumst á við þessar breytingar með þau skýru markmið að tækniþróun verði til að efla velsæld alls almennings, virki eins og vítamínsprauta á þekkingarsköpun og rannsóknir og styðji við lýðræðislegar undirstöður samfélagsins.

Orð síðustu kosninga var tvímælalaust orðið „innviðir“. Grettistaki hefur verið lyft frá þeim í að efla ýmsa félagslega og áþreifanlega innviði. Nægir þar að nefna heilbrigðiskerfið, háskólana og vegakerfið. Ríkisstjórnin hefur aukið útgjöld í samfélagsleg verkefni um 115 milljarða frá árinu 2017 sem er meira en talið var mögulegt nokkrum misserum fyrr. Þessir milljarðar hafa farið í bætta geðheilbrigðisþjónustu, minni kostnað sjúklinga, nýjan Landspítala, minni skerðingar á framfærslu örorkulífeyrisþega, hærri barnabætur, minni skattbyrði á tekjulægri hópa, hærri framlög á hvern háskólanema, ýmsar samgöngubætur og stór verkefni á sviði loftslagsmála. En enn er frekari þörf á innviðauppbyggingu eins og við vorum rækilega minnt á í umfangsmesta rafmagnsleysi síðari tíma nú í desembermánuði. Aukin opinber fjárfesting mun einnig styðja við hagstjórn á tíma þar sem hægist á í hagkerfinu.

Mín ósk á þessu ári er því sú að áfram verði haldið á braut velferðar og uppbyggingar í loftslagsmálum, tæknibreytingum og samfélagsinnviðum, landsmönnum öllum til heilla, því það er í senn almannahagur og skynsamleg stefna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search