Search
Close this search box.

Til hamingju með daginn

Deildu 

Þann 19. júní fögnum við og minnumst þess dags þegar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt 1915 og fimm árum síðar allar konur á Íslandi. Það er mikilvægt að velta fyrir okkur merkingu þessara tímamóta því þó að okkur finnist oft sem markmiðum kvennabaráttu sé náð þá skiptir það nefnilega máli að taka þeim ekki sem gefnum hlut. Við þurfum því að halda áfram, því jafnrétti er ekki náð og það sem meira er, við höfum séð alvarlegt bakslag í jafnréttismálum á heimsvísu síðustu ár. 

Ríkisstjórnin hefur sett jafnréttismál í forgang á þessu kjörtímabili og er árangur góður. Stór skref hafa verið stigin. Þar má nefna fyrstu heildstæðu fullfjármögnuðu áætlunina um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem samþykkt var á Alþingi þar sem ýmsir aðilar, meðal annars sveitarfélögin, gegna lykilhlutverki. Forvarnir og fræðsla eru lykilatriði til að uppræta það samfélagsmein sem felst í kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. 

Í samningi Evrópuráðsins sem kenndur er við Istanbúl og fullgiltur var 2018 er kveðið á um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Til að vinna að markmiðum samningsins skipaði ég í mars 2018 stýrihóp til að fjalla á heildstæðan hátt um umbætur í kerfunum okkar. Eitt af því sem nefna má sem afrakstur þeirrar vinnu eru lög um kynferðislega friðhelgi og frumvarp um umsáturseinelti. 

Ný jafnréttislög voru samþykkt í lok árs 2020. Þar er að finna margar mikilvægar réttarbætur. Í fyrsta skiptið er kveðið á um bann við fjölþættri mismunun sem veitir meðal annars konum með fötlun og konum af erlendum uppruna aukna vernd. Þar er einnig að finna þau nýmæli að í fyrsta skiptið er gert ráð fyrir fólki með hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá, auk kvenna og karla. 

Ríkisstjórnin ákvað í upphafi kjörtímabils að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf. Þar er kveðið á um að orlofinu sé skipt jafnt á milli foreldra með möguleika á að framselja sex vikur. Lenging fæðingarorlofs er nefnilega hvort tveggja, risastórt velsældarmál sem eykur lífsgæði barna og foreldra og stórt jafnréttismál sem tryggir jafna þátttöku foreldra í uppeldi barna sinni. 

Þá verður að nefna áralangt baráttumál kvennahreyfingarinnar um lög um þungunarrof sem ekki höfðu verið endurskoðuð frá áttunda áratug 20. aldar. Með þeim var sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama tryggður mun betur en með eldri lögum.

Það er því sannarlega tilefni til að fagna nýjum sigrum og halda áfram. Minnumst þó á sama tíma allra þeirra afreka sem kvennahreyfingin á Íslandi færði okkur með áratuga baráttu sinni. Eins og sagan hefur sýnt okkur er með einu pennastriki hægt að taka til baka áfangasigra og staða dagsins í dag er ekki endilega ávísun á áframhaldandi góðan árangur í framtíðinni. Um leið og við fögnum sigrum skulum við halda vöku okkar og slaka hvergi á í baráttu okkar fyrir jafnrétti.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search