Search
Close this search box.

Til hamingju með daginn!

Deildu 

Í dag eru 100 ár síðan fyrst var gengin kröfuganga hér á landi á baráttudegi verkalýðsins 1. maí þar sem vinnandi fólk kom saman til að leggja áherslu á kröfur um réttlátt samfélag. Árið 1923 var 1. maí virkur dagur og þurfti verkafólk að taka sér frí úr vinnu ef það vildi taka þátt. Forystufólk lagði mikið á sig til að safna saman fólki til að taka þátt í göngunni og þótti takast vel. Sumar kröfurnar eru kunnuglegar, t.d. krafan um að „þurftarlaun“ ættu að vera skattlaus. Einnig var krafist réttlátrar kjördæmaskipunar, banns við helgidagavinnu og næturvinnu, engar kjallarakompur skyldu samþykktar, bæjarlandið skyldi ræktað og atvinnubætur greiddar gegn atvinnuleysi. Kröfur voru um að framleiðslutæki yrðu þjóðareign en kröfurnar voru þó hvergi nærri eins róttækar og í mörgum nágrannalöndum Íslands á sama tíma líkt og fram kemur í sögu Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða Ísleifsson.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar á liðinni öld hefur skilað umbótum í lífskjörum og velferð launafólks á nánast öllum sviðum en fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja nú sjálfsögð kröfðust átaka á sínum tíma. Samstaða vinnandi fólks skilaði árangri á borð við samningsrétt, uppsagnarfrest, lífeyrisréttindi, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og svo mætti lengi telja. Verkalýðshreyfingin hefur að sama skapi haft ómetanleg áhrif á uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir miklar umræður á Alþingi þar sem andstæðingar þeirra töldu þau ýta undir almenna leti í samfélaginu. Þá barðist verkalýðshreyfingin ötullega fyrir félagslegu húsnæði en lög um verkamannabústaði voru sett 1929.

Á síðari árum má líka nefna mörg framfaramál sem hefur verið unnið að í samvinnu stjórnvalda og heildarsamtaka launafólks. Þar má nefna styttingu vinnuvikunnar, lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf og aukinn launajöfnuð karla og kvenna en nú stendur yfir tilraunaverkefni sem unnið er í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um mat á virði kvennastarfa. Í tengslum við þá kjarasamninga sem undirritaðir voru fyrir síðustu áramót kynntu stjórnvöld aðgerðir til að styðja við kjarasamninga og bæta lífskjör fólksins í landinu. Við ákváðum meðal annars að efla barnabótakerfið enn frekar með því að hækka barnabætur og ráðast í breytingar sem gera það að verkum að fjölskyldum sem fá barnabætur fjölgar um nærri þrjú þúsund, einfalda kerfið og draga úr tekjuskerðingum. Þessar breytingar byggja meðal annars á góðri umræðu á vettvangi þjóðhagsráðs þar sem sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, Seðlabankans, sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar.

Þá ákváðum við að auka húsnæðisstuðning til bæði eigenda og leigjenda og áfram verður haldið að fjölga nýjum íbúðum í samstarfi við sveitarfélögin og halda áfram uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu fyrir tekjulægri leigjendur með auknum stofnframlögum frá ríkinu sem verða 4 milljarðar króna í ár. Sú uppbygging bætist við þær ríflega 3.000 íbúðir sem byggðar hafa verið upp í almenna íbúðakerfinu á undanförnum árum, m.a. í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna í gegnum Bjarg íbúðafélag sem reynst hefur afar mikilvægt til að lækka húsnæðiskostnað og auka húsnæðisöryggi tekjulægri heimila. Við munum vinna áfram að bættri réttarstöðu leigjenda með breytingum á húsaleigulögum og taka fulltrúar vinnumarkaðarins þátt í þeirri vinnu með okkur.

Kjarasamningarnar sem tókust á þessum vetri eru skammtímasamningar en á samningstímanum verður unnið að ýmsum mikilvægum málum sem varða mikilvæg réttindi launafólks eins og hámarksgreiðslur frá fæðingarorlofssjóði og ábyrgðasjóði launa og heildarendurskoðun á atvinnuleysisbótakerfinu. Þá munu stjórnvöld veita stuðning til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum sem er mikilvægur liður í að kveða niður verðbólguna. Hún er enn þrálát og forgangsverkefnið því áfram að kveða hana niður. Sú fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur kynnt styður við Seðlabankann í því verkefni. Ég er þess fullviss um að við munum sjá þessar aðgerðir bera árangur bráðlega en á sama tíma munum við hér eftir sem hingað til standa vörð um viðkvæmustu hópana. Alltaf þarf að hugsa til framtíðar og hvernig við tökumst á við nýjar áskoranir til að tryggja réttindi, jöfnuð og velsæld. Þríhliða samtal stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda á norrænum vettvangi um réttlát umskipti vegna loftslagsvárinnar er liður í því að tryggja lífskjör almennings til lengri tíma á umbrotatímum. Þetta samtal verður sett af stað undir forystu Íslands í formennskutíð okkar í Norrænu ráðherranefndinni þar sem sérstök áhersla er lögð á réttlát umskipti í öllum loftslagsaðgerðum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search