Search
Close this search box.

Tillaga sveitarstjórnarráðs VG um ungmennahús

Deildu 

Samþykkt sveitarstjórnarráðs VG

Tillaga:

Sveitarstjórnarráð VG  samþykkir að skora á Alþingi að treysta í sessi starfsemi ungmennahúsa fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára með því að gera hana að lögbundnu hlutverki sveitarfélaga, jafnframt þarf að tryggja fjármagn til reksturs þessa mikilvæga verkefnis.

Greinargerð:

Ungmennahús sinna skipulögðu félagsstarfi fyrir ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára. Þjóna þau þeim tilgangi að veita ungmennum öruggt félagslíf undir leiðsögn fagaðila og hafa þau mikil fræðslu og forvarnargildi fyrir ungmennin. Ungmennahús eiga það öll sameiginlegt að þar fer fram skipulagt tómstunda- og forvarnarstarf fyrir ungmenni. Þannig falla ungmennahús undir skipulagt starf sem á þátt í að stuðla að farsæld barna eins og greint er á um í 2. grein í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna (1989) þarf að virða rétt allra barna 18 ára og yngri til tómstunda. Mikilvægt er að öllum sé veitt jöfn tækifæri til þátttöku í menningarlífi, listum og tómstundaiðju (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, 1989).

Hér á landi starfa ungmennahús fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri en mjög mismunandi er hver efri aldursmörk markhópsins eru, sum miða við 16 -18 ára, önnur 16-25 ára á meðan enn önnur skilgreina sig þannig að þar sé unnið með ungmennum sem eru 16 ára og eldri. Erfitt að segja til um hversu mörg ungmennahús eru á Íslandi en í Samfés, samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi, eru 16 ungmennahús með aðild. Starfsemi ungmennahúsa á Íslandi byggir að miklu leyti á hugmyndafræði félagsmiðstöðva en er þó ólík að því leyti að markhópur ungmennahúsa er eldri og áhugamál og þarfir aðrar. Í ungmennahúsum byggja þátttakendur oft á reynslu sinni úr félagsmiðstöðinni, geta axlað meiri ábyrgð og haft enn meira frumkvæði að verkefnum.

Hugmyndafræði ungmennahúsa byggir að miklu leyti á virkri þátttöku, reynslunámi og valdeflingu ungs fólks. Húsin hafa líkt og annað skipulagt tómstundastarf þríþætt uppeldisgildi, þ.e.: forvarnargildi, menntunargildi og afþreyingargildi (Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, 2015).

Markmið ungmennahúsa er:

  • Að vera vettvangur fyrir menningarlega viðburði og grósku þar sem ungt fólk getur bæði nýtt sér þá aðstöðu sem í boði er til listsköpunar og komið sér á framfæri, hvort sem um ræðir sjónlist, tónlist eða ritlist. 
  • Að bjóða ungu fólki upp á jákvætt félagslegt umhverfi 
  • Að vera ungu fólki innan handar með hvað varðar þeirra málefni, atvinnu og réttindi,  bjóða upp á fjölbreytt námskeið og félagsstarf.
  • Að bjóða ungu fólki upp á öruggt rými, til að kynnast öðru fólki, þróa sig áfram sem persónur, hvíla sig, skapa, eða hvað sem er sem þeim sjálfum dettur í hug. 

Ungmennahús eru ekki rekin af sömu aðilum og standa fyrir skólastarfi aldurshópsins sem sækir starfið og samstarf ungmennahúsa og framhaldsskóla er mun minna en samstarf félagsmiðstöðva og grunnskóla. Eftir að grunnskóla lýkur fara ekki allir í framhaldsskóla, sumir  hætta í námi og fara á vinnumarkaðinn. Engu að síður eru félagslegar þarfir þeirra til staðar sem ungt fólk á vinnumarkaði hefur ekki aðgang að heldur blasir við heimur fullorðna fólksins. Þá hefur ungt fólk á vinnumarkaði ekki greiðan aðgang að ráðgjöfum líkt og nemendur í framhaldsskólum gera. Þar koma ungmennahús sterk inn.

Menning ungs fólks á aldrinum 16-25 ára er einnig mjög ólík menningu 13-16 ára unglinga að því leyti að mun hærra hlutfall af 16-25 ára ungmennum neytir áfengis og annarra vímugjafa. Samkvæmt könnun Rannsókna og greiningar frá árinu 2013 höfðu 45% allra framhaldsskólanema verið ölvaðir einu sinni eða oftar 30 dögum áður en að þeir svöruðu spurningalistum. Niðurstöður könnunarinnar sýndu einnig að 31% 16-17 ára ungmenna í framhaldsskólum höfðu orðið ölvuð síðastliðna 30 daga. Aðeins 5% nemenda í 10. bekk höfðu orðið ölvuð á sama tímabili. Þessi mikla breyting á milli eins árgangs má hugsanlega skýra með því að áfengisneysla hefur í gegnum árin verið samofin félagslífi framhaldsskólanna og ekki er unnið jafn markvisst að forvörnum í félagsstarfi þeirra eins og gert er í félagsmiðstöðvum grunnskólanna. Einnig byrjar fólk að fikra sig áfram í ástarsamböndum á þessum aldri og stunda kynlíf. Mikilvægt er að ungt fólk hafi aðgengi að starfsfólki ungmennahúsa til að geta leitað ráða og speglað samskipti sín í ástar- og vinasamböndum og ef þörf þykir á, og leitað til fagaðila eftir dýpri aðstoð.

Jafnframt hefur komið í ljós, að þegar verða samfélagsleg áföll hafa orðið reynast ungmennahús virkilega vel, líkt og í efnahagshruninu 2008 og því atvinnuleysi ungs fólks sem fylgdi í kjölfarið, og nú síðast Covid-19 faraldrinum. Þá jók t.a.m. ungmennahúsið Hamarinn í Hafnarfirði opnunartímann sinn til að koma til móts við ungt fólk sem þurfti skjól/hvíld frá heimilum sínum á þeim tíma.

Annað nærtækt dæmi frá Hamrinum í Hafnarfirði um hlutverk ungmennahúsa er að hann og Bergið Headspace eru í samstarfi og er ráðgjafi frá þeim staddur í Hamrinum alla mánudaga og þjónustar þannig ungmenni í sínu nærumhverfi. Þetta samstarf er að koma virkilega vel út og er til fyrirmyndar fyrir önnur sveitarfélög.

Minna þarf á, að börn eru skilgreind sem börn til 18 ára aldurs eins og kemur skýrt fram í Farsældarlögunum, en eftir að grunnskóla lýkur þá losnar um ýmsa eftirfylgni foreldra og grunnskóla og stöðugleiki í lífi ungs fólks getur raskast. Brottfall úr framhaldsskóla á Íslandi er með því hæsta sem gerist á Norðurlöndunum. Þá mælist kvíði á meðal ungmenna mjög mikill og vanlíðan þessa hóps eykst. Á Norðurlöndunum er rekin ungmennahús í nær öllum sveitarfélögum en ekki hérlendis. Ungmennahús gætu komið til móts við þennan vanda með að bjóða upp á hópastarf, klúbbastarf, ráðgjöf, öryggi, og tækifæri á að mynda félagsleg tengsl við aðra jafnaldra sína en einmanaleiki meðal ungs fólks mælist einnig hár hérlendis, sem leiðir svo til ýmissa annarra vandamála eins og rannsóknir sýna. Þau ungmennahús sem eru starfandi á landinu sýna það og sanna að þörfin er til staðar og henni þarf að mæta, með faglegu og metnaðarfullu starfi.

Ungmennahús eru fyrir öll ungmenni á aldrinum 16-25 ára en sérstaklega skal beina sjónum að ungu fólki í viðkvæmri stöðu og það getur átt við um öll ungmenni, á þessu æviskeiði. Þá eru þau ekki síður fyrir fötluð ungmenni en ungmennahús hafa gjarnan verið með skipulagt hópastarf fyrir þá einstaklinga. Sama má segja um ungmenni af erlendum uppruna en mikilvægt er að skapa vettvang fyrir þá einstaklinga til að hitta aðra á sama aldri en einangrast ekki.

VG telur mikilvægt að fjárfesta í ungmennum þessa lands og sporna gegn áhættuhegðun þessa viðkvæma aldurshóps, 16 – 25 ára. Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt tómstundastarf hafi mikið forvarnargildi og hjálpi einstaklingum að verja frítíma sínum á jákvæðan og uppbyggilegan máta.

                                                                                    Fyrir hönd sveitarstjórnarráðs VG

                                                                                                            Álfhildur Leifsdóttir

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search