Search
Close this search box.

Tillaga um viðræður við Heilbrigðisráðuneyti um rekstur neyslurýmis samþykkt í borgarstjórn.

Deildu 

Ræða í borgarstjórn:

Við ræðum hér tillögu fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og okkar Vinstri grænna um að hefja samtal við Heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Þetta mál sem ég hef lengi barist fyrir á sér þó nokkuð langan aðdraganda. Fram til ársins 2014 var lítil framþróun í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Borgin rak gistiskýli fyrir heimilislausa í gamla farsóttarhúsinu á Þingholtsstræti auk þess sem kaffistofa Samhjálpar var opin yfir daginn. Hafði þetta fyrirkomulag verið nánast óbreytt um áratuga skeið. Fyrsta heildstæða stefnan í málefnum heimilislausra leit síðan dagsins ljós í febrúar 2014 og gilti sú stefna til ársins 2018. Ný stefna var svo samþykkt í borgarstjórn nú í júní 2019. Í henni kemur m.a. fram að skoða þurfi aðstæður kvenna sérstaklega, en rannsóknir sýna að vandi þeirra er oft meira falinn úti í samfélaginu. Ég er stolt af því að hafa komið að gerð stefnunnar og aðgerðaráætlunarinnar, hún er bæði framsækin og róttæk og snýr fyrst og fremst að því að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir, á þeirra forsendum, sem er einmitt í anda stefnu okkar Vinstri grænna.

Jón Gnarr þáverandi borgarstjóri viðraði sínum tíma hugmyndir sínar um að setja á fót neyslurými fyrir einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Mörgum þótti hugmyndin ansi fjarstæðukennd og ekki hægt að segja að það hafi verið víðtæk sátt um hana, hvorki innan stjórnmálanna né meðal fagfólks í félags- og heilbrigiðmálum þegar hún var lögð fram. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði stafshóp sem hafði það hlutverk að skila tillögum um skaðaminnkandi nálgun í þjónustu og lagalegu umhverfi vímuefnaneytenda. Hópurinn skilaði skýrslu árið 2016 þar sem m.a. var lagt til að sett yrði á fót neyslurými fyrir þá sem nota vímuefni um æð. Breytingar létu á sér standa en nú hrósum við því happi að núvernadi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafði kjark og þor til að standa með skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við þá sem nota vímuefni um æð. Lögunum var svo loksins breytt í maí 2020 þar sem heimilt er að setja á fót neyslurými að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eftir stendur að afnema refsingar við vörslu neysluskammta og hefur það mál verið boðað inn á því þingi sem nú er að hefjast.

En hvað er neyslurými og út á hvað gengur þessi skaðaminnkandi nálgun?

Skaðaminnkandi nálgun byggir í grunnin á nálgun mannúðar og skynsemi og því  að viðurkenna fólk sem notar vímuefni og veita þeim aðstoð til að draga úr þeim skaða sem af neyslunni hlýst, bæði fyrir neytendur og fyrir samfélagið í heild. Ekki er gerð krafa um að hætta neyslu til að eiga rétt á aðstoð og stuðningi.

Neyslurými eru lagalega samþykkt svæði fyrir einstaklinga til að neyta ólöglegra vímuefna og er markmið þeirra ávallt að draga úr þeim skaða sem hlýst af vímuefnaneyslu. Opnun neyslurýmis byggir á þeirri hugmynd að ef að einstaklingar sem nota vímuefni um æð fengju ákveðinn stað þar sem þeir gætu sprautað sig á öruggan hátt myndi það draga úr ýmiskonar skaðlegum hliðarverkunum því tengdu. Neyslurými hafa verið til frá því á áttunda áratugnum, aðallega í Vestur-Evrópu, en útbreiðsla þeirra hefur verið nokkur undanfarin ár og neyslurými hafa til að mynda verið opnuð í Ástralíu og Kanada. Fyrsta neyslurýmið var opnað árið 1986 í Berne í Sviss. Frá þeim tíma hafa mörg önnur lönd fylgt í kjölfarið, s.s Holland, Þýskaland, Noregur og Danmörk. Ég hef sjálf kynnt mér starfssemi neyslurýma og skoðaði m.a. slíkt í Amsterdam ásamt fulltrúum í Mannrétttindaráði árið 2013 og sannfærðist í þeirri ferð að hér væri um gríðarlega mikilvæga þjónustu að ræða fyrir einn jaðarsettasta hóp samfélagsins.

Ég tek að lokum undir mat Velferðarsviðs um að það sé jákvætt skref að heimila með lögum rekstur neyslurýmis. Sú mannúð sem felst í skaðaminnkandi nálgun getur skilið milli lífs og dauða fyrir þá sem þurfa á svo nauðsynlega á þjónustunni að halda. Mikilvægt er að veita öfluga heilbrigðisþjónustu í tengslum við slíkan rekstur en einnig fjölbreytta félagslega aðstoð og er Reykjavíkurborg reiðubúin í það samtal. Við skulum öll hafa kjark og þor til að standa með þeim sem þurfa öruggan stað til að neyta vímuefna um æð með mannúð og fordómaleysi að leiðarljósi. Ég hvet ykkur kæru borgarfulltrúar til að samþykkja tillöguna, hún er vissulega upp á líf og dauða.

Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search