Search
Close this search box.

Tillögum Embættis landlæknis vegna bráðamóttöku LSH hrint í framkvæmd

Deildu 

Heilbrigðisráðuneytið hefur lagt allt kapp á að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem embætti landlæknis lagði til í hlutaúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans fyrir ári. Aðgerðirnar hafa skilað árangri og bíða nú nokkru færri einstaklingar á deildum spítalans vegna útskriftarvanda en þegar úttektin var gerð.

Embætti landlæknis réðst í gerð hlutaúttektar á bráðamóttökunni í desember 2018 vegna ábendingar um að mikið álag á móttökunni ógnaði öryggi sjúklinga. Eins og segir í úttektarskýrslu embættisins eru ekki til neinar skyndilausnir á ástandinu en embættið beindi í kjölfar úttektar sinnar allmörgum ábendingum til Landspítalans um leiðir til að bregðast við og sömuleiðis til heilbrigðisráðuneytisins (sjá úttektarskýrsluna bls. 23).

Ábendingarnar til heilbrigðisráðuneytisins voru í níu liðum. Þær snúa einkum að því að efla þjónustu við aldraða, bæði með fjölgun hjúkrunarrýma og jafnframt með aukinni heimahjúkrun, fjölgun dagdvalarrýma og áherslu á heilsueflingu aldraðra. Einnig er í ábendingunum fjallað um aðgerðir til að efla mönnun, sérstaklega í störfum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og um sérhæfða heimaþjónustu við veika aldraða. Hér að neðan er rakið það helsta sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert í þessum efnum frá því að úttekt Embættis landlæknis var gerð.

Fjölgun hjúkrunarrýma, dagdvalarrýma og endurhæfingarrýma

Hjúkrunarrýmum fjölgaði á nýliðnu ári um 78 á höfuðborgarsvæðinu og í samræmi við áætlun um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma er í fjárlögum þessa árs gert ráð fyrir auknum framlögum til uppbyggingar hjúkrunarrýma sem nemur 1,8 milljörðum króna. Munar þar mestu um opnun nýs 99 rýma hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í vor.

Dagdvalarrýmum hefur verið fjölgað markvisst með áherslu á þjálfun og aukna þjónustu við fólk sem býr í heimahúsum. Á nýliðnu ári var opnuð sérhæfð 30 rýma dagdvöl á Hrafnistu í Reykjavík fyrir fólk með heilabilun og sérhæfðum dagdvalarrýmum í MS-setrinu var fjölgað um 6. Á Akureyri hófst á liðnu ári tilraunaverkefni um rekstur sveigjanlegrar dagþjónustu sem vonir standa til að muni draga úr og/eða seinka þörf fólks fyrir innlögn á hjúkrunarheimili. Síðastliðið sumar veitti heilbrigðisráðherra Hafnarfjarðarbæ rekstrarheimild fyrir 12 nýjum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Á þessu ári verður komið á fót 4 endurhæfingarrýmum við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki með áherslu á endurhæfingu aldraðra.

Aukið fé til heimahjúkrunar og heilsueflandi móttökur í heilsugæslunni

Á liðnu ári var 130 milljónum króna af fjárlögum varið sérstaklega til að styrkja mönnun í heimahjúkrun og auka þjónustuna og á þessu ári liggur fyrir ákvörðun um 200 milljónir króna til viðbótar til að efla þjónustu heilsugæslunnar með sérstökum heilsueflandi móttökum sem ætlaðar verða eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál. Markmiðið að tryggja þessum hópi þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ótvírætt að allar framantaldar aðgerðir séu til þess fallnar að draga úr álagi á Landspítalann. Opnun sjúkrahótelsins í sumar hafi sömuleiðis skipt máli og enn fremur ljóst að sú fjölgun hjúkrunarrýma sem framundan er muni bæta stöðuna umtalsvert: „Við leysum ekki vanda bráðamóttökunnar með einni aðgerð. Þetta er langhlaup þar sem markviss og viðvarandi vinna, útsjónasemi og framsýni er lykillinn að árangri. Mönnunarvandinn er þar meðal stórra verkefna og enn frekari efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu sömuleiðis“ segir heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search