Search
Close this search box.

Tillögur um 39 mælikvarða um hagsæld og lífsgæði kynntar

Deildu 

Ríkisstjórnin tók til umfjöllunar niðurstöður nefndar forsætisráðherra um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði á ríkisstjórnarfundi í morgun. Nefndin skilaði tillögu að 39 félagslegum, umhverfislegum og efnahagslegum mælikvörðum sem eru lýsandi fyrir hagsæld og lífsgæði á Íslandi.

Mælikvörðunum er ætlað að gefa góða yfirsýn yfir lykilþætti velsældar á Íslandi og vera mikilvægt tæki fyrir stefnumótun stjórnvalda. Þeir gefa fyllri mynd af velsæld en hefðbundnir efnahagslegir mælikvarðar, eins og landsframleiðsla, með því að mæla þætti sem hafa áhrif á daglegt líf fólks og heimila í landinu. Mælikvarðarnir taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðuþjóðanna, þeir byggja á opinberum hagtölum og eru samanburðarhæfir við önnur lönd.

Samkvæmt könnun sem nefndin lét gera skiptir heilsa (þ.e. góð heilsa og greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu) landsmenn mestu máli þegar þeir meta eigin lífsgæði. Næst koma samskipti við vini og fjölskyldu, húsnæði og afkoma. Landsmenn setja heilsu einnig í fyrsta sæti þegar þeir meta hvað einkennir góð samfélög.

Ísland er í samstarfi við Skotland og Nýja-Sjáland um áherslur við uppbyggingu velsældarhagkerfa. Þessi lönd og mörg önnur innan OECD hafa verið að þróa mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og tengja þá mælikvarða við opinbera stefnumótun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Ég hef lagt á það áherslu að þróaðir verði mælikvarðar sem taki tillit til félagslegra þátta og umhverfis en ekki bara til efnahagslegra þátta þegar við mælum árangur samfélaga og lífsgæði. Það er ekki nóg að mæla bara stærð og vöxt hagkerfisins, það þarf líka að mæla allt það sem hefur áhrif á líf fólks. Næsta skref er að fara betur yfir tillögur nefndarinnar og tengja aðgerðir ríkisstjórnarinnar við mælikvarðana og mun næsta fjármálaáætlun styðjast við þær niðurstöður.“

Forsætisráðuneytið, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Wellbeing Economy Governments og OECD, mun halda ráðstefnuna „Að mæla árangur með hagvexti og hamingju“ á mánudaginn 16. september nk. Þar verður m.a. fjallað um skýrslu nefndar forsætisráðherra um mælikvarða um hagsæld og lífsgæði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Derek Mackay fjármála- og efnahagsráðherra Skotlands, Angel Gurría framkvæmdastjóri OECD og Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor við Háskóla Íslands munu halda erindi á ráðstefnunni og taka þátt í pallborði.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search