Dagurinn 2. maí 2019 gæti þegar fram í sækir markað tímamót í skógræktarstarfi á Íslandi. Þann dag samþykkti Alþingi ný lög um skóga og skógrækt. Um heildarendurskoðun er að ræða á eldri lögum frá 1955.
Lög um skógrækt frá 1907 marka að mörgu leyti upphaf skipulagðrar skógræktar á Íslandi. Fyrir þann tíma voru gerðar ýmsar tilraunir til skógræktar og var t.d. stofnað til Furulundarins á Þingvöllum árið 1899 og Grundarreits í Eyjafirði árið 1900. Einnig var ríkinu veitt heimild í lögum árið 1898 til að kaupa Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg til að forða þeim frá eyðingu. Það var framfaraskref og njótum við öll þessarar ákvörðunar Alþingis í dag.
Margt breyst frá 1955
Mikil breyting hefur orðið á skógrækt á Íslandi á þeirri rúmu öld sem liðin er frá setningu fyrstu laganna. Verulegar breytingar hafa auk þess orðið á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála síðan lögin frá 1955 voru sett. Hér á landi hafa tekið gildi ný lög um náttúruvernd, skipulagsmál og um mat á umhverfisáhrifum. Auk þess hafa alþjóðasamningar á borð við loftslagssamninginn, samning um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samning um varnir gegn eyðimerkurmyndun, sem allir eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, tekið gildi. Mikil þörf var því orðin á heildarendurskoðun laganna.
Með nýju lögunum eru sett fram ný markmið m.a. varðandi verndun náttúruskóga og aukna útbreiðslu þeirra, ræktun skóga til fjölþættra nytja og sjálfbæra nýtingu skóga. Umhirða og nýting skóga skal meðal annars miðast við að skógarnytjar skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Skógræktin er sú stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd laganna og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
Sjálfbær nýting leiðarstef
Lögin kveða á um gerð landsáætlunar í skógrækt fyrir landið allt sem er mikilvægt stefnumótunar- og stjórntæki. Landsáætlun skal fjalla um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt. Jafnframt skal vinna landshlutaáætlanir í samráði við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem útfæra þá stefnu sem fram kemur í landsáætlun. Lögin gera ráð fyrir að Skógræktin geti tekið þátt í og stutt við skógræktarverkefni sem er á ábyrgð annarra s.s. einstaklinga, félagasamtaka eða sveitarfélaga og sjálfbær nýting skóga er leiðarstef í nýjumlögum.
Ég bind vonir við að þessi lagasetning muni stuðla að aukinni útbreiðslu og endurheimt birkiskóga og ræktun skóga með fjölbreytt markmið sem eru samþætt öðrum áformum um landnotkun og alþjóðasamningum. Aukin fjárframlög til loftslagsmála og kolefnisbindingar eru mikilvæg staðfesting á vilja stjórnvalda til að efla bæði landgræðslu, skógvernd og skógrækt í landinu.