Það er ýmislegt sem nútímatækni og framfarir i heilbrigðisþjónustu hafa gert til að breyta heiminum. Eitt af því er að lengja líf fólks. Við erum heilsuhraustari lengur og þar af leiðandi lengist ævikvöldið. Það er ýmislegt sem þarf að gera til að koma til móts við þetta. Eitt af því er að endurskoða ellilífeyrisaldur.
Ég hef lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að fela fjármála- og efnahagsráðherra ásamt félags- og barnamálaráðherra að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám þeirra ákvæða úr lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur.
Ég tel að þetta sé nauðsynleg og tímabær breyting. Þau rök liggja fyrir í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að 60-70 ára gamlir starfsmenn viðurkenni það sjaldnast sjálfir að þeir séu ekki lengur vinnuhæfir og að veita þurfi ungum mönnum færi til að komast til starfa. Vissulega þarf að tryggja að ungt fólk komist að vilji það starfa fyrir hið opinbera. Því fylgir oftast ferskur blær og ný sjónarmið. Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því að eldri starfsmenn, sem kannski hafa starfað fyrir hið opinbera í fjölda ára, búa yfir reynslu og þekkingu sem getur reynst dýrmæt, jafnt fyrir starfsemina sjálfa og fyrir nýja starfsmenn.
Það skýtur skökku við að um leið og fólk nær ákveðnum aldri eigi það að vera óhæft til starfa, líkt og einhver hafi ýtt á hnapp. Því tel ég nauðsynlegt að gera þeim, er þess óska, kleift að starfa áfram og hafa heilsu til eftir 70 ára aldurinn.
Málið sem nú liggur fyrir Alþingi er ekki lagt fram með það að leiðarljósi að hvetja eða þrýsta á opinbera starfsmenn að lengja starfsævi sína. Þvert á móti tel ég það lykilatriði að starfsmennirnir sjálfir fái að meta það hvenær þeir vilji hefja lífeyristöku, hvort sem það er fyrir eða eftir sjötugt. Ég tel að það sé einnig mikilvægt að gera starfsfólki sem nálgast lífeyrisaldur kleift að lækka starfshlutfall sitt.
Ég tel jafnframt að það sé rétt að vinna að afnámi þessara aldurstakmarkana í samvinnu við samtök opinberra starfsmanna, enda mikilvægt að sjónarmið þeirra komi fram þegar verið er að breyta lögum og reglum sem þá snerta.