Search
Close this search box.

Tíu ár frá hryðjuverkunum í Útey

Deildu 

Í júní 2011 eignaðist ég minn þriðja og yngsta dreng. Ég gegndi þá embætti mennta- og menningarmálaráðherra í ríkisstjórn Íslands. Ísland hafði nýlega gengið í gegnum alvarlega fjármálakreppu og bankahrun og verkefnin í ríkisstjórninni ærin. Drengurinn minn var óvæntur sólargeisli sem ekki veitti af á erfiðum tímum og nokkrir mánuðir í fæðingarorlofi voru kærkomnir. Eins og foreldrum finnst almennt fannst okkur hann vera sannkallað kraftaverk, vitnisburður um fegurð mennskunar. Ég var því heima þegar fyrstu fréttir bárust af sprengingum í stjórnarráðshverfinu í Osló. Ég sat límd við norskar fréttir eftir það enda sem betur fer ekki á hverjum degi sem slíkar fréttir berast frá vina- og frændþjóðum okkar. Fréttirnar áttu síðan eftir að verða miklu skelfilegri.

Í dag velti ég fyrir mér hvar þau væru núna, þessi 77 ljós sem slökknuðu fyrir 10 árum, yfirgnæfandi meirihluti táningar. Hvert allir þessir lífsþræðir sem skyndilega og sorglega voru rofnir hefðu legið og hvað þeir hefðu lagt til umhverfis síns, fjölskyldu, samfélags, heimsins. Kjarnasetning okkar samfélags er að hver manneskja sé dýrmæt og við leggjum mikið á okkur til að tryggja að allir fái notið sín. Við erum mörg og ólík og styrkur okkar er samheldnin. Í stóráföllum sjáum við vanmátt okkar og leitum ósjálfrátt til hvors annars. Við snertumst og föðmumst, finnum að það veitir okkur styrk. Við erum sterkari saman. Við höfum verið minnt rækilega á það seinustu misserin hvað þetta skiptir miklu máli. Hvert þeirra sem dó 22. júlí 2011 lagði til þráð í vef samfélagsins og gerði hann þéttari, hlýrri og máttugri. Og orð þeirra og gerðir eru enn hluti af samfélaginu. Snertingin, líf þeirra og ljósið sem þau komu með lifir áfram.

Þannig er dagurinn í dag áminning um að vinna stöðugt að því að skapa kærleiksríkt samfélag fjölbreytileika á sama tíma og hann er þungur í sinni. 22. júlí minnir okkur á að að frjáls, opin og jöfn samfélög eru ekki sjálfgefin og fást ekki baráttulaust. Allt okkar starf er stöðug varðstaða um þau gildi sem gera okkur að því sem við erum. Hann minnir líka á tengslin. Minnir á að orðið frændþjóð hefur merkingu og innihald. Við erum og verðum fjölskylda. Fjöldamorðin í Útey voru glæpur gegn mennskunni. Börn og ungmenni létu lífið í nafni öfgasinnaðrar hægri-þjóðernisstefnu. Börn og ungmenni sem öll voru kraftaverk í augum foreldra sinna. Börn og ungmenni sem voru vitnisburður um fegurð mennskunnar. Nú þegar við minnumst þessara voðaverka þá skulum við sammælast um að standa vörð um mennskuna. Gleymum aldrei að ekkert dugir gegn slíkum voðaverkum nema samstaða góðra manna um að leyfa þeim ekki að gerast. Það gerum við til að heiðra minningu þeirra sem dóu í Útey en líka til að verja börn og ungmenni dagsins í dag.

– Birtist í dag á norsku á fréttamiðlinum Trønderdebatt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search