Search
Close this search box.

Tíu atriði

Deildu 

Á kjörtímabilinu hefur margt gerst á sviði  heilbrigðismála. Heilbrigðiskerfið sjálft hefur verið eflt fjárhagslega svo um munar og ýmsar nýjungar í stefnumótun, skipulagi og framboði þjónustu verið gerðar. Mig langar til að nefna sérstaklega tíu atriði sem sýna það að við erum sannarlega að gera betur í heilbrigðismálum. 

  1. Fyrst nefni ég heilbrigðisstefnu sem var samþykkt á Alþingi í júní 2019. Með setningu heilbrigðisstefnu hafa heilbrigðisyfirvöld og stofnanir heilbrigðiskerfisins nú vegvísi sem gerir að verkum að sjúklingum er tryggð rétt og samfelld þjónusta á réttu þjónustustigi.
  2. Í öðru lagi nefni ég framkvæmdir við nýjan Landspítala við Hringbraut sem ganga vel. Nýtt sjúkrahótel hefur var tekið í notkun á kjörtímabilinu og framkvæmdir við meðferðarkjarna eru í fullum gangi. 
  3. Heilsugæslan hefur verið efld sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Fagstéttum sem starfa innan heilsugæslunnar hefur verið fjölgað og fjárframlög til heilsugæslunnar hafa aukist um rúmlega 22% á kjörtímabilinu. 
  4. Greiðsluþátttaka sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hefur lækkað verulega. Hlutfallið var 18,3% árið 2013 en hafði lækkað í 15,6% árið 2019, sem er nýjasti útreikningur yfir hlutfallið. Í fjármálaætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga.
  5. Geðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld verulega, til dæmis með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu og geðheilsuteymum um land allt. 
  6. Ráðist hefur verið í stóráták í fjölgun hjúkrunarrýma, en samhliða mikilli uppbyggingu rýma hefur verið unnið að því að efla dagvöl, heimaþjónustu og heilsueflingu aldraðra.
  7. Kostnaður vegna tannlækninga aldraðra og öryrkja hefur lækkað mikið. Það er afgerandi þáttur í því að jafna aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu og sporna við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum. 
  8. Við höfum sett stefnu í endurhæfingarmálum og unnið framkvæmdaáætlun til þess að koma tillögum stefnunnar til framkvæmda. 
  9.  Í því skyni að ná markmiði heilbrigðisstefnu um enn öflugra lýðheilsustarf lagði ég fram þingsályktunartillögu um lýðheilsustefnu á alþingi í mars 2021, en mikilvægt er að stefna um lýðheilsu standi á traustum grunni og samræmist heilbrigðisstefnu.
  10. Að endingu nefni ég stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu. Landsráðið mun hafa það hlutverk að greina mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins og koma með tillögur til ráðherra varðandi mönnun og menntun þessara stétta og unnið er að samsetningu þess í heilbrigðisráðuneytinu nú um stundir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search