Í netkönnun Gallup um traust almennings til stofnana og embætta sem fór fram á tímabilinu 14. janúar til 15 febrúar kemur í ljós að traust til heilbrigðiskerfisins hefur ekki mælst meira í 20 ár, en könnunin sýnir að 77% landsmanna bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins. Úrtakið var um 6.350 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 52,6%. Í samanburði við aðrar stofnanir og embætti er heilbrigðiskerfið í þriðja sæti þeirra sem njóta mest trausts, á eftir Landhelgisgæslunni og embætti forseta Íslands.
Traust til heilbrigðiskerfisins mældist minnst árið 2016 (46%) og hefur síðan þá aukist ár frá ári. Árið 2017 mældist mældist traust til heilbrigðiskerfisins 62%. Traustið hefur aukist jafnt og þétt á kjörtímabilinu og mælist nú 77%.
Spurt var um traust fólks til heilbrigðiskerfisins eftir búsetu og könnunin sýnir að 78% íbúa Reykjavíkur bera traust til heilbrigðiskerfisins, hlutfallið er 75% hjá íbúum nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og 78% hjá íbúum annarra sveitarfélaga. Munurinn eftir búsetu er því ekki mikill. Ef litið er til aldurshópa ber fólk á aldrinum 35 – 44 ára mest traust til heilbrigðiskerfisins, eða 83%, og næstmest er traustið í aldurshópnum 65 ára og eldri (80%).
Einnig var spurt um traust fólks til Landspítala og embættis landlæknis. Gögn um þetta fyrir Landspítala eru til frá árinu 2017. Þá mældist traust til spítalans 64% en mælist nú 79%. Gögn um embætti landlæknis ná til þriggja ára. Traust til embættisins mældist 75% árið 2019 en mælist nú 87%.
Í könnuninni var líka spurt um afstöðu fólks til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda vegna Covid-19. Alls eru 92% landsmanna ánægð með aðgerðirnar, 3% segjast hvorki né en 4% óánægð. Konur (96%) eru ánægðari með sóttvarnaaðgerðir en karlar (87%). Lítill munur er á afstöðu til sóttvarnaráðstafana eftir búsetu. Þeir sem mælast fullkomlega ánægðir, mjög ánægðir eða frekar ánægðir eru samanlagt 92%, og er það sama niðurstaðan hvort sem litið er til Reykjavíkur, nágrannasveitarfélaganna eða annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni. Það er gott að sjá þessar niðurstöður og finna að almenningur ber traust til þeirra aðgerða sem grípa hefur þurft til vegna heimsfaraldursins.
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 segir að mikilvægt sé að almenningur treysti heilbrigðiskerfinu og hafi greiðan aðgang að einföldum og skýrum upplýsingum og leiðbeiningum um heilbrigðisþjónustuna og hvert eigi að leita þegar á reynir. Því eru þessar niðurstöður fagnaðarefni. Niðurstöðurnar sýna einnig og sanna að í heilbrigðiskerfinu okkar býr dýrmæt þekking og reynsla og kraftmikill mannauður.