Search
Close this search box.

Traust heilsugæsla

Deildu 

Ný­lega kom út sam­an­tekt Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins þar sem fjallað er um þjón­ustu heilsu­gæsl­unn­ar, þróun henn­ar og ár­ang­ur á ár­un­um 2014-2019. Í sam­an­tekt­inni kem­ur meðal ann­ars fram að aðgengi að þjón­ustu heilsu­gæsl­unn­ar hef­ur verið bætt til muna með nýj­ung­um og breyttu skipu­lagi, sál­fræðing­ar og sjúkraþjálf­ar­ar starfa nú á öll­um heilsu­gæslu­stöðvum og skipu­lögð heilsu­vernd fyr­ir aldraða er í sókn.

Þessi þjón­ustu­aukn­ing er í takt við áherslu mína á efl­ingu heilsu­gæsl­unn­ar sem fyrsta viðkomu­staðar fólks í heil­brigðis­kerf­inu. Í þeim efn­um er Heilsu­gæsla höfuðborg­ar­svæðis­ins ekki bara mik­il­væg fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið held­ur á landsvísu. Fram­lög til Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins hafa auk­ist um 24% á ára­bil­inu 2017-2020 í sam­ræmi við mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar um efl­ingu henn­ar.

Í sam­an­tekt Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins kem­ur fram að all­ar heilsu­gæslu­stöðvarn­ar bjóða nú upp á opna mót­töku þar sem hjúkr­un­ar­fræðing­ar taka á móti fólki sam­dæg­urs og/​eða svara er­ind­um í síma og koma þeim í far­veg. Lækn­ir er til­tæk­ur ef á þarf að halda í tengsl­um við þessa þjón­ustu. Auk þessa hef­ur tíma­úr­val hjá lækn­um verið aukið þar sem boðið er upp á styttri viðtals­tíma sam­dæg­urs. Sam­skipti fólks við heilsu­gæsl­una í gegn­um mín­ar síður á vefn­um www.heilsu­vera.is aukast jafnt og þétt. Árið 2017 áttu sér stað rúm 24.000 sam­skipti í gegn­um heilsu­veru, þau voru rúm­lega 65.000 árið 2018 og nærri 120.000 árið 2019.

Geðheilsu­teymi Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins hafa öll tekið til starfa, þ.e. geðheilsu­teymi HH aust­ur sem þjón­ar íbú­um Breiðholts, Árbæj­ar, Grafar­vogs, Norðlinga­holts, Grafar­holts og Kjal­ar­ness, geðheilsu­teymi HH vest­ur sem er fyr­ir íbúa miðborg­ar­inn­ar og vest­ur­hluta borg­ar­inn­ar og nú síðast geðheilsu­teymi HH suður sem þjón­ar Kópa­vogi, Garðabæ og Hafnar­f­irði og tók til starfa í byrj­un þessa árs. Starf­semi geðheilsu­teym­anna eykst jafnt og þétt. Árið 2018 voru sam­skipti við not­end­ur geðheilsu­teym­anna tæp­lega 7.300 en rúm­lega 12.700 árið 2019. Þjón­usta teym­anna kem­ur til viðbót­ar þeirri þjón­ustu sem veitt er á heilsu­gæslu­stöðvun­um og er fyr­ir þá sem þurfa meiri og sér­hæfðari þjón­ustu.

Ný­lega létu Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands vinna könn­un um þjón­ustu heilsu­gæslu­stöðva á höfuðborg­ar­svæðinu. Sam­kvæmt niður­stöðum henn­ar bera not­end­ur heilsu­gæsluþjón­ustu hjá heilsu­gæslu­stöðvum á höfuðborg­ar­svæðinu al­mennt mikið traust til heilsu­gæsl­unn­ar (74%), eru ánægðir með þjón­ust­una (79%) og telja viðmót og fram­komu starfs­fólks gott (90%).

Heilsu­gæsl­an veit­ir not­end­um heil­brigðis­kerf­is­ins mik­il­væga og góða þjón­ustu, sem er veitt af fjöl­breytt­um og öfl­ug­um hópi fag­fólks. Við þurf­um að halda áfram að efla heilsu­gæsl­una og styrkja – og það mun­um við gera.

Höf­und­ur er heil­brigðisráðherra.

Svandís Svavars­dótt­ir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search