Til þess að styðja við langtímakjarasamninga á vinnumarkaði lögðu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélag fram pakka með aðgerðum til þess að styðja við markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um vaxandi velsæld, aukinn kaupmátt og skilyrði fyrir verðstöðugleika. Hluti þeirra aðgerða snúa að húsnæðismarkaðnum en miklir hagsmunir liggja í því fyrir almenning og stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði.
Fyrsti hluti þessara heita var efndur fyrir þinghlé með samþykkt laga um hækkun húsnæðisbóta. Í lögunum var kveðið á um fjórðungshækkun húsnæðisbóta og aukið tillit til fjölda heimilismanna. Á tímabili kjarasamninga munu 9 milljarðar renna til tekjulægri heimila til að koma til móts við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Engum blöðum er um það að fletta að mestu máli skiptir að tryggja uppbyggingu húsnæðis næstu árum og í mínu ráðuneyti er mikil áhersla lögð á að skapa skilyrði til þess, m.a. með því að greina hvernig styðja má uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði með stofnframlögum og hlutdeildarlánum.
Húsnæðisöryggi leigjenda
Í mínum huga er afar mikilvægt að ljúka við að bæta húsnæðisöryggi leigjenda og setja skýrari ramma um fyrirsjáanleika leigufjárhæða í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda. Allar mælingar sem stjórnvöld hafa yfir velsæld íbúa landsins benda til þess að leggja þurfi sérstaka áherslu á aðstæður fólks á leigumarkaði. Fjórum sinnum fleiri heimili á leigumarkaði búa við skort á efnislegum gæðum en þau sem búa í eigin húsnæði. Húsnæðisöryggi er grunnþörf fólks og því afgerandi mælikvarði á velgengni okkar sem samfélags.
Í ríku þjóðfélagi eins og Íslandi höfum við tækifæri til þess að ná árangri í þessum málaflokki. Þó að landsmönnum hafi fjölgað svo mikið síðustu ár að hvaða byggingariðnaður sem er hefði átt í erfiðleikum með að byggja nægjanlega mikið húsnæði eigum við að setja markið hærra. Rannsóknir sýna enda að öruggt húsnæði er forsenda velsældar og forsenda þess að fólk geti blómstrað.
Það er ekki furða að samtök launafólks, sem fyrst og síðast berjast fyrir bættum kjörum alþýðu landsins, setji umbætur á húsaleigulögum á oddinn. Þessar réttlátu kröfur eru nú orðnar hluti af því púsluspili sem efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki er, með því að vera hluti af forsendum kjarasamninga til næstu fjögurra næstu ára.
Fyrir þessum umbótum eru margvísleg efnisleg rök eins og kemur fram hér að ofan. Rökin sem vega þyngst eru þó einfaldlega þau að til að yfirlýsingar stjórnvalda njóti trúverðugleika þurfa þeim að fylgja efndir. Þannig sköpum við skilyrði til stöðugleika og aukinnar velsældar allra. Annars er sáð í akur óstöðugleika.
Svandís Svavarsdóttir er innviðaráðherra.