Staðan í húsnæðismálum hefur verið eitt stærsta viðfangsefni okkar síðan ríkisstjórnin hóf störf. Margt hefur áunnist en verkefninu er síður en svo lokið – þess vegna skipaði ég starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði í upphafi árs. Að vinnunni hafa komið félags- og vinnumarkaðsmálaráðherra, innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra auk fulltrúa sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Starfshópurinn kynnti svo í morgun tillögur sínar fyrir þjóðhagsráði. Megin skilaboð starfshópsins eru að húsnæðismál séu bæði mikilvægt velferðarmál og stórt efnahagsmál og þess vegna þurfi aðgerðir í húsnæðismálum bæði að stuðla að félagslegri samheldni og efnahagslegum stöðugleika. Aukið framboð af nýju húsnæði og húsnæðisöryggi með jöfnu aðgengi allra að hagkvæmu húsnæði eru þess vegna forgangsverkefni. Þetta er mikilvæg afstaða til verkefnisins og ég tek undir með hópnum um þessa forgangsröðun. Í skýrslu starfshópsins er gerð tillaga um eina sameiginlega húsnæðisáætlun fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings.
Þá er í skýrslunni að finna tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost, tillögur um skilvirkt regluverk, stjórnsýslu og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum og um samþættingu uppbyggingu íbúða og samgönguinnviða.
Ég tel mjög brýnt að við hefjumst nú þegar handa við að fylgja tillögum starfshópsins eftir og þess vegna tilkynntum við á fundi þjóðhagsráðs í morgun að strax hefjist viðræður milli ríkisins og sveitarfélaganna um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin þar sem sérstaklega verður hugað að því að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og húsnæði á hagkvæmu verði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Þá munum við einnig setja af stað vinnu við endurskoðun á því hvernig við styðjum við fólk þegar kemur að húsnæði. Þetta munum við gera í samstarfi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins ásamt því að endurskoða húsaleigulög til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Allt eru þetta þættir sem munu þoka okkur nær því að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja öllum húsnæðisöryggi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra