EN
PO
Search
Close this search box.

Um kol­efnislosun, orku­skipti og ramma­á­ætlun

Deildu 

Bregðast verður við grein eftir full­trúa Land­verndar og Ungra um­hverfis­sinna í Frétta­blaðinu (29.06), þótt seint sé.

Í stöðu­skýrslu um stöðu og á­skoranir í orku­málum frá 1. mars sl. (stundum kölluð græn­bók) var gerð grein fyrir öllum sviðs­myndum, sem til voru þá, um orku­skipti. Líka sviðs­mynd þriggja náttúru­verndar­sam­taka. Sex sviðs­myndir spanna allt frá litlum orku­skiptum til fullra orku­skipta. Þau miða að því að fasa út yfir einni milljón tonnum af olíu, bensíni og stein­olíu. Það þarf mikið raf­afl, mun meira en nokkur hundruð megawött sem ná má með orku­sparnaði, glat­varma stór­iðju, frá­hvarfi bitcoin-samninga, auknu rennsli jökul­vatna eða betri varma­nýtingu í nú­verandi orku­verum. Til þess þarf sam­bland vatns­orku, jarð­varma og vindafls um­fram það sem fengist með fyrr­greindum hætti. Þver­pólitísk orku­stefna frá 2020 byggir á sjálf­bærni og sí­endur­skoðuðum mark­miðum lofts­lags­stefnu. Niður­staða skýrslunnar eru 30 á­bendingar um brýn verk­efni til stjórn­valda, m.a. um mikil­vægi hring­rásar­hag­kerfis.

Svið­myndir orku­skipta gera ráð fyrir allt frá litlum vexti/breytingum í hag­kerfinu til mikillar upp­byggingar græns iðnaðar, ný­sköpunar, sjávar­tengds iðnaðar og land­búnaðar með ó­vissu lang­tíma mati á orku­þörf. Í skýrslunni er einnig fjallað um þann mögu­leika að ein­hver stór málmiðju­ver hætti starf­semi og orka losni þar til fullra orku­skipta. Sam­tímis er bent á að lítill pólitískur vilji er til að segja upp samningum við þau. Ég get giskað á að það sé m.a. vegna stærðar þeirra í hag­kerfinu, af­leiddrar starf­semi og þess að ál­verin stefna að niður­dælingu kol­díoxíðs og jafn­vel kol­efnis­lausum raf­skautum. Nýjasta skrefið gæti verið varma­fram­leiðsla með vatni og bráðnu áli er breytir málminum í súrál sem nota má aftur.

Sviðs­myndir fullra orku­skipta eru gróf­lega degnar upp vegna þess að á­tján ár eru til stefnu miðað við sett mark­mið 2040. Á næstu árum breytir tækni­þróun orku­skipta, einkum á sjó og í lofti, auð­vitað miklu um fram­farir og eftir­spurn eftir raf­orku. Hitt er um leið aug­ljóst að heildar­losun Ís­lands, að frá­taldri losun frá upp­þurrkuðu, breyttu og illa förnu landi, nemur eftir sem áður 4 til 5 milljónum tonna af kol­efnisí­gildum. Losun í bíla­sam­göngum (þar er árangur þegar nokkur), frá vinnu­tækjum, í sjávar­út­vegi (þar er árangur þegar nokkur), land­búnaði, o.fl. greinum minnkar enn of hægt, miðað við Parísar­sam­komu­lagið 2030. Flug og siglingar milli landa og orku­frekur iðnaður lúta ytri kvóta­kerfum. Þar er of hæg þróun á okkar könnu.

„Bið­flokkurinn er stór vegna þess að í honum eru virkjana­kostir sem sam­komu­lag er um að endur­skoða“

Full orku­skipti ná til allrar losunar úr jarð­efna­elds­neytis­vélum í ís­lenskri notkun. Það sam­svarar varla 12% losunar Ís­lands, eins og segir í greininni. Sú tala gæti átt við öku- og vinnu­tæki á landi. Losun frá rúm­lega 1.000.000 tonnum af jarð­efna­elds­neyti á ári, í lofti, á sjó og landi er miklu hærra hlut­fall heildar­losunar en 12%. Sam­tímis er líka tekist á við kol­efnislosun úr lausum, þurrum, votum og skemmdum jarð­vegi og sí­frera (alls milljónir tonna á ári), en sú bar­átta er löng og ströng.

Tölu­vert er fjallað um ramma­á­ætlun í skýrslunni. Lögin eru eina not­hæfa, sýni­lega verk­færið til þess að tryggja sem mesta sátt um heildar­skipu­lag raf­orku­fram­leiðslu í með­förum fag­hópa, al­mennings og Al­þingis. Á það hefur reynt árum saman. Frá 2010 að telja hafa komið nýjar breytur í orku­mál og ramma­á­ætlun: Breytt lofts­lags­mark­mið, full orku­skipti, mögu­leg vindorka og til­lögur um að lækka afl­við­mið virkjana og loks að tekið skuli til­lit til allra þriggja þátta sjálf­bærni. Það merkir að endur­meta ber náttúru­þáttinn í ljósi þróunar t.d. um­hverfis- og ferða­mála. Enn fremur að draga skuli sam­fé­lags­þáttinn betur inn í mat á­samt efna­hags­lega þættinum. Bið­flokkurinn er stór vegna þess að í honum eru virkjana­kostir sem sam­komu­lag er um að endur­skoða. Ný verk­efnis­stjórn er tekin við og vinnur fag­lega eins og hinar. Það er ekki ó­sigur náttúru­verndar, sem er önnur grunn­undir­staða sam­fé­lagsins, að færa kosti inn eða úr flokknum. Eða vega þá að nýju með víð­tækari eða breyttum for­sendum sjálf­bærni en lengst af var gert, þ.e. á meðan um­hverfis­við­mið voru fyrst og fremst höfð til hlið­sjónar. Hin grunn­undir­staða sam­fé­lagsins eru náttúrunytjar sem eru ekki sjálf­virkt og fyrir­fram sam­nefndar eyði­leggingu náttúrunnar. Á milli þessara tveggja undir­staða þarf að vera jafn­vægi og um þær sæmi­leg sátt í landinu. Einnig um að beita sjálf­bærni sem leiðar­ljósi við náttúrunytjar. Það snertir eðli­lega alla náttúru­vernd og fyrr­nefnt jafn­vægi.

Ari Trausti Guðmundsson, fyrr­verandi þing­maður og einn þriggja höfunda stöðu­skýrslunnar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search