PO
EN

Um mikilvægan mannréttindasamning

Deildu 

Um þessar mundir eru 16 ár síðan Ísland undirritaði Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun, en samningurinn hafði verið samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Ísland fullgilti svo samninginn árið 2016.

Samningurinn er gríðarlega mikilvægur mannréttindasáttmáli en felur þó ekki í sér nein ný eða sértæk réttindi fyrir fólk með fötlun. Markmið hans er einfaldlega að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fólk með fötlun til jafns við aðra. Að sama skapi á hann að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggir fólki með fötlun jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum. Innleiðing samningsins í íslensk lög hefur tekið allt of langan tíma en nú sér loks fyrir endann á því. Í forsætisráðuneytinu er nú unnið að lögfestingu hans, sem og stofnunar Mannréttindastofnunar. Í liðinni viku var haldið á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vel sótt samráðsþing. Þar voru kynnt drög að tillögum starfshóps fjölda samstarfsaðila um innleiðingu og framkvæmd samningsins.Að mörgu er að huga þegar kemur að málefnum fólks með fötlun. Nefna má aðgengismál, bæði aðgengi að mannvirkjum en ekki síður aðgengi að hinum stafræna heimi, aðgengi að menntun og atvinnumál. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun er sérstaklega fjallað um réttinn til þess að afla sér lífsviðurværis með atvinnu og að vinnuumhverfi sé fólki með fötlun aðgengilegt og án aðgreiningar.

Samhliða verðum við sem samfélag að vera meðvituð um það að hluti fólks með fötlun mun reiða sig á almannatryggingakerfið okkar. Samningurinn kveður á um rétt fólks til viðunandi lífskjara og áætlanir um að draga úr fátækt. Endurskoðun örorkulífeyriskerfisins stendur yfir og frítekjumark vegna atvinnutekna hefur nú þegar verið hækkað. Næstu skref verða að vera að samhliða því að einfalda örorkulífeyriskerfið verði greiðslur hækkaðar svo fólk með fötlun geti búið við mannsæmandi kjör.

Steinunn Þóra Árnadóttir, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search