Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti ávarp á sérstökum viðburði Norðurskautsráðsins um súrnun sjávar á Cop25 í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra situr nú loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (Cop25) sem fram fer í Madrid á Spáni en svokölluð ráðherravika hófst þar í dag.
Málefni hafsins voru ofarlega á baugi á ráðstefnunni í dag en Guðmundur Ingi flutti ávarp á sérstökum viðburði Norðurskautsráðsins um súrnun sjávar auk þess að taka þátt í samnorrænum viðburði um hafið og loftslagsbreytingar.
Ráðherra sagði m.a. að samvinna Norðurlandanna á sviði loftslagsmála hefði aukist til muna í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Mikilvæg skref hefðu verið tekin í átt að meiri samvinnu um loftslagsmál, svo sem með Helsinki-yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna frá í janúar, yfirlýsingu norrænu umhverfisráðherranna um nauðsyn alþjóðasamnings um plastmengun og nýlegri yfirlýsingu ráðherranna um hafið og loftslagsbreytingar. Ráðherra lagði sérstaka áherslu á mikilvægi samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og þess að huga að stefnumörkun um kolefnishlutleysi til lengri tíma.
„Þótt súrnun hafsins sé ekki eins sýnileg og bráðnun jöklanna okkar, þá kallar hún á tafarlausar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Áhrif súrnunar á lífið í hafinu og efnahag fiskveiðiþjóða kemur okkur öllum við,“ sagði Guðmundur Ingi.
Ráðherra átti að auki tvíhliða fundi, m.a. með Richard Baron framkvæmdastjóra 2050 Pathways Platform en það er vettvangur sem ætlað er að styðja ríki í að þróa langtímaáætlun um kolefnishlutleysi. Eins fundaði hann með Dr. Hoesung Lee, formanni Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC).
Meginviðfangsefni loftslagsráðstefnunnar nú er að ljúka við regluverk um innleiðingu Parísarsamningsins, en þar ber hæst reglur varðandi 6. grein Parísarsamningsins um samvinnu ríkja um losunarmarkmið, auk tæknilegrar vinnu varðandi bókhald og skýrslugjöf.