Search
Close this search box.

Umhverfisráðherra í pallborðsumræðum Climate Action um kolefnishlutleysi

Deildu 

Kolefnishlutleysi er leiðin fram á við og þarf að verða að veruleika sem fyrst, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á vefviðburði Climate Action um kolefnishlutleysi.

Guðmundur Ingi var meðal þátttakenda í pallborðsumræðum um aðferðir Norðurlandanna við að ná kolefnishlutleysi, en ríkin standa framarlega í þeim málum á heimsvísu.

Umræðurnar snerust meðal annars um markmið Norðurlandanna um að ná kolefnishlutleysi og þann þátt sem orkuskipti eiga í því ferli, hringrásarhagkerfið, náttúrumiðaðar lausnir eins og landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, auk aðferða þar sem koldíoxíði er dælt niður til geymslu (e. carbon capture storage (CCS)) sem og niðurdæling koldíoxíðs til steinrenningar eða Carbfix aðferðin sem þróuð hefur verið hér á landi (e. carbon capture mineralization (CCM)).    

Guðmundur Ingi vakti athygli á að kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 sé eitt af markmiðunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. „Að setja sér slík markmið sendir skýr skilaboð til allra um að róttækra aðgerða sé þörf og það hið fyrsta. Þetta hefur skilað sér í því að mörg fyrirtæki og sveitarfélög hafa nú hafið vinnu að þessu markmiði,“ sagði Guðmundur Ingi.

Þá hafi íslensk stjórnvöld lagt sérstaka áherslu á orkuskipti í samgöngum, skógrækt og endurheimt votlendis og annarra vistkerfa sem tengist líka aðgerðum til að sporna gegn tapi á líffræðilegum fjölbreytileika.

Meðal annarra þátttakenda í pallborðsumræðunum voru aðstoðarráðherra orku- og olíumála í norsku stjórninni og forstjóri dönsku orkustofnunarinnar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search