Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helgi Pétursson, formaður Landsambands eldri borgara, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Þar lýsa þessir aðilar yfir vilja til þess að auka samstarf og samvinnu varðandi málefni eldra fólks með það að markmiði að tryggja eldra fólki samhæfða þjónustu við hæfi, á réttu þjónustustigi og á réttum tíma hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins.
Skipuð hefur verið verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgreindrar aðgerðaáætlunar meðal annars með tillögum um hvaða breytingar á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks.