Search
Close this search box.

Ung Vinstri græn fordæma ákvörðun dómsmálaráðherra

Deildu 

Landsstjórn Ungra vinstri grænna fordæmir þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hefja á ný endursendingar á fólki til Grikklands. Við lýsum yfir ánægju með yfirlýsingar varaformanns VG í fréttum RÚV í gærkvöldi og hvetjum okkar fólk til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að þessari ákvörðun verði framfylgt. Stefna VG í málaflokknum er skýr og nú ríður á að hafa hugrekki til að standa með okkar sannfæringu þó svo samstarfsflokkarnir og þeirra ráðherrar séu ef til vill á öðru máli. Ríkisstjórnarsamstarfið má aldrei verða mikilvægara en mannúð.

Það fólk sem nú á að flytja úr landi hefur verið hér í langan tíma og myndað náin tengsl við land og þjóð og gefið af sér til samfélagsins. Þessi ákvörðun er pólitísk og keyrð áfram af ríkisstjórn Íslands. 

Ítrekað hefur komið fram að Grikkland sé ekki öruggt land, þrátt fyrir að vera á lista yfir slík lönd, og styðja frásagnir fólks af aðstæðum þar í landi við það. Annað sem styður við það er ákvörðun íslenskra stjórnvalda fyrir nokkrum árum um að hætta að endursenda fólk í hæliskerfinu í Grikklandi vegna óviðunandi aðstæðna þar. Sú ákvörðun nær þó ekki til fólks með vernd í Grikklandi og er það með öllu óskiljanlegt. Það er ljóst að ekkert bíður þessa hóps nema örbirgð, óöryggi, skortur á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og algjört vonleysi. 

Fólksflótti í heiminum orsakast að mestu af lifnaðarháttum og hernaðarbrölti vestrænna ríkja. Ísland þarf að gangast við sinni ábyrgð á orsök fólksflótta og taka hér á móti mun fleira fólki á flótta en hefur viðgengist hingað til og sýna meiri metnað þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Fyrir utan augljós mannúðarsjónarmið auðgar fjölbreytileikinn samfélagið okkar. 

Landsstjórn Ungra vinstri grænna hvetur ríkisstjórn Íslands eindregið til að draga til baka ákvörðun sína um endursendingar flóttafólks og líta til mannúðarsjónarmiða og félagslegs ávinnings fyrir samfélagið okkar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search