Search
Close this search box.

Unnið að undirbúningi þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum

Deildu 

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Stofnunin vinnur nú ásamt samstarfshópi að undirbúningi friðlýsingar fyrir svæði sem m.a. nær til Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils, Geirþjófsfjarðar og jarðanna Dynjanda og Hrafnseyrar við Arnarfjörð.

Í september 2019 færði RARIK íslenska ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en miðhálendi Íslands. Á grundvelli átaks í friðlýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðherra setti á fót í júní 2018, hefur m.a. verið unnið að þessari skoðun m.t.t. gjafar RARIK. Í byrjun ársins 2020 hófst undirbúningsvinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun. Í kjölfarið var stofnaður samráðshópur undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins skipaður fulltrúum sveitarfélaganna tveggja, Umhverfisstofnunar, Landgræðslusjóðs sem eiganda jarðarinnar Langa-Botns í Geirþjófsfirði, forsætisráðuneytisins sem umsjónaraðila Hrafnseyrar við Arnarfjörð og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

„Á Íslandi eru fáir þjóðgarðar, ekki síst miðað við hversu stórfenglega náttúru hér er að finna. Þjóðgarðarnir okkar þrír hafa hver sína sérstöðu þar sem náttúruverðmæti, saga og menning tvinnast saman í órjúfanlega heild. Einhvern tímann heyrði ég þá líkingu að þjóðgarðar væru eins og betri stofan; þar eru okkar fínustu djásn sem við viljum vernda, þar njótum við samveru og upplifunar ásamt því að bjóða þangað gestum. Ég sé mikil tækifæri í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, ekki síst fyrir vernd náttúru og menningar okkar, en  líka vegna tækifæra til atvinnusköpunar sem felast í þessu aðdráttarafli fyrir landshlutann  í heild sinni, enda svæðið einstakt og ólíkt öðrum svæðum þar sem í dag eru þjóðgarðar“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Frekari upplýsingar um áform um stofnun þjóðgarðs er að finna á vef Umhverfisstofnunar en vakin er athygli á því að Umhverfisstofnun stendur fyrir söfnun á hugmyndum að nafni á þjóðgarðinn.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search