Nú þegar mesta smithættan vegna COVID-19 virðist loks vera að líða hjá og helsta heilsufarshættan blessunarlega í rénun, blasa við okkur ótrúlegar áskoranir í efnahagslífinu og í hagkerfinu. Eins og hvirfilbylur hafi farið um samfélagið, rykið sé að setjast og við séum loks að geta litið yfir og áttað okkur á skemmdunum eftir hamfarirnar.
Og staðan er ekki beysin.
Tæplega 40 þúsund manns voru skráð á atvinnuleysisskrá í lok mars, eða 9,2% þeirra sem eru á vinnumarkaði að meðtöldum þeim sem fá atvinnuleysisbætur vegna skerts starfshlutfalls. Vinnumálastofnun býst við að atvinnuleysi fari upp í 16,9% í apríl, sem verður þá mesta skráða atvinnuleysi á Íslandi, en það lækki svo í maí. Í fyrstu efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að COVID-19 faraldurinn hófst, spáir AGS 3% samdrætti í heimshagkerfinu. Það yrði þá mesti samdráttur síðan í kreppunni miklu á 3. og 4. áratug síðustu aldar. Til samanburðar þá dróst heimshagvöxturinn saman um 0,1% í fjármálakreppunni 2009. En Ísland mun koma enn verr út; AGS spáir 7,2% samdrætti hagvaxtar hér á landi á þessu ári.
Grunnatvinnugrein Íslendinga síðastliðin ár, ferðaþjónustan, er nánast eins og sviðin jörð. Því miður blasir við nánast algert hrun í greininni. Grein sem hefur skapað mestan gjaldeyri af öllum atvinnugreinum á Íslandi undanfarin ár, að ótöldum öllum störfunum fyrir þúsundir manna um allt land, grein sem kom okkur á fæturna eftir Hrunið fyrir áratug. Auðvitað var sá vöxtur ekki án vaxtarverkja og ágangs á náttúru en nauðsynlegur til að koma okkur úr Hruninu.
Í öllum efnahagsaðgerða björgunarpökkum ríkisstjórnarinnar er afar mikilvægt að ríkisvaldið stígi inn í uppbygginguna eins og það hefur gert, stuðli að endurreisninni með öllum ráðum en gefi líka skýran tón í hvaða átt við sem samfélag eigum að fara. Það er vel skiljanlegt að togað sé úr öllum áttum til að mætt sé þeim gríðarlega miklu áskorunum sem við okkur blasa. En þá reynir á staðfestu, einbeitingu og framsýni. Og það skiptir ótrúlega miklu máli við þessar dæmalausu aðstæður að við dettum ekki af leið framsýnna, umhverfisvænna lausna við þá uppbyggingu, að við höldum fast í skuldbindingar okkar við Parísarsamkomulagið, að við finnum efnahagslegan farveg fyrir sjálfbæra og græna atvinnuuppbyggingu. Þess vegna var ótrúlega mikilvægt þegar Alþingi samþykkti nú í lok mars sérstakt fjárfestingaátak fyrir árið 2020, þar sem m.a. tveimur milljörðum verður varið í ýmiss konar opinbera fjárfestingu aukalega til verkefna á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. En við þurfum að halda áfram á þeirri braut. Margir gagnrýndu fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar fyrir að ekki væri gert ráð fyrir aðgerðum fyrir kvennastéttir. Það má ekki gerast nú, við megum ekki detta í stórkarlalegar lausnir sem gangast meira öðru kyninu, heldur byggja upp með því að styrkja atvinnugreinar sem bæði konur og karlar eru þátttakendur í. AUGLÝSING
Stuðningur ríkisins verður að vera skýr og styðja verður markvisst við grænar fjárfestingar, græna uppbyggingu ferðaþjónustunnar, umhverfisvænar lausnir bæði í matvælaframleiðslu, tækninýjungum og fleiri greinum, áframhaldandi aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum verða að vera hluti af efnahagsuppbyggingunni og styrkja verður við hugvit í orkugeiranum og græna nýsköpun. Styðja verður líka áfram að miklum móð við menningu, sköpun og listir. Sýnin verður að vera skýr.
Áhersla á grænar fjárfestingar við endurreisn Evrópu
Við sjáum að þrýstingur á grænar lausnir við endurreisn efnahagslífsins í löndunum í kringum okkur er mjög skýr og sterkur. Fjölmennur evrópskur hópur kjörinna fulltrúa, forstjóra stórra evrópska fyrirtækja og leiðtogar verkalýðshreyfinga í Evrópu hafa kallað eftir því að einblínt sé á grænar fjárfestingar til að hefja aftur efnahagslegan vöxt í álfunni. Þessi hópur samanstendur meðal annars af 10 ráðherrum Evrópuríkja, um 80 kjörnum fulltrúum og forstjóra L’Oreal (OREP.PA), forstjóra IKEA og forstjóra Danone (DANO.PA). Í yfirlýsingu hópsins er lögð þung áhersla á að efla líffræðilega fjölbreytni til að endurreisa hagkerfið og sporna við samdrættinum sem vofir yfir Evrópu. Skilaboðin eru skýr; til að endurreisa sterkara hagkerfi í kjölfar COVID-19, þarf að halda áfram að berjast gegn loftslagsbreytingum. Það muni byggja upp þrautseigari samfélög.
Til viðbótar við þetta mikilvæga ákall 180 áhrifafólks í stjórnmálum og viðskiptum í Evrópu um að grænar lausnir verði hafðar að leiðarljósi við efnahagsuppbyggingu Evrópu, hafa 10 ESB-ríki ásamt Þýskalandi, Frakklandi og Grikklandi, undirritað opið bréf þar sem ESB er hvatt til að tryggja að björgunarpakki hans í efnahagsmálum styðji við Græna Pakka ESB (e.Green Deal)
Þetta eru gríðarlega mikilvæg skilaboð nú þegar Evrópusambandið stefnir hratt í samdráttarskeið í sögu sambandsins og deildur hafa verið upp um hvernig eigi að fjármagna efnahagsbatann. Og það skiptir líka miklu máli fyrir Ísland að Evrópa haldi áfram á braut sjálfbærni og líffræðilegum fjölbreytileika við efnahagslega uppbyggingu, þar sem um er að ræða eitt helsta viðskiptasvæði okkar.
En það eru líka lönd innan ESB sem vilja aflétta loftlagsstefnu sambandsins við endurreisnina eins og Pólland og Tékkland. Það eru öflug og sterk öfl sem vilja nýta tækifærið til að snúa af braut umhverfisvænna og sjálfbærra lausna í efnahagskerfinu.
Tækifærin
Það er mikilvægt á tímum sem þessum að reyna að horfa á það sem gæti talist vera tækifæri eða bjartari tíð á svörtum tímum. Það má halda því til haga að AGS spáir því að efnahagsleg áhrif faraldursins verði tímabundin og að þau muni fjara út á seinni árshelmingi þessa árs og að á næsta ári muni samdrátturinn snúast upp í nokkuð kröftugan 5,8% hagvöxt. Það er hughreystandi sýn. Áhersla er samt lögð á að óvissa sé í þeirri spá og því sé enn mikilvægari en nokkru sinni að efnahagsaðgerðir stjórnvalda verði skilvirkar til þess að draga úr líkum á meiri samdrætti. Viðsnúningur í ferðaþjónustunni verður líka að verða einhver, þó við verðum að vera raunsæ. En íslensk ferðaþjónusta hefur staðið af sér áföll áður og íslensk ferðaþjónusta hefur sýnt að hún hefur getuna til að styrkja sig á erfiðum tímum og hafa þannig keðjuverkandi áhrif á aðra greinar atvinnulífsins.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.