Search
Close this search box.

Utangátta

Deildu 

Á Íslandi búa nú 395 þúsund manns. Af þeim eru ríflega 70 þúsund aðfluttir. Það eru rúm 18 % landsmanna. Á sumum landsvæðum er hlutfallið enn hærra og t.d. á Suðurnesjum eru um 28% íbúa aðfluttir. Þessi fjöldi aðfluttra á drjúgan þátt í því kröftuga atvinnulífi sem einkennir landið og hefur haft mikla þýðingu í þeirri endurreisn og uppbyggingu sem einkennt hefur íslenskt samfélag eftir hrunið 2008. Það má því segja að landið, samfélagið, standi í mikilli þakkarskuld við þennan stóra hóp innfluttra. Í þessum fjölmenna hópi eru einstaklingar með mjög fjölbreytta menntun og starfsreynslu. Aðfluttir eru hryggjarstykkið í m.a. ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Ef þeirra nyti ekki við væri samfélag okkar verr statt, skortur á vinnuafli og hagvöxtur mun minni. Þessi 18% af mannfjölda í landinu hefur annað tungumál en íslensku sem fyrsta mál.

Fyrir þá sem flytjast milli landa og hefja nýtt líf í ókunnu málumhverfi blasa við ýmiss vandamál. Þeir sem ekki skilja tungumál landsins eiga á hættu að einangrast, hrekjast frá námi, þekkja ekki rétt sinn og stöðu  í velferðarsamfélaginu, þekkja ekki rétt sinn á vinnumarkaði, eru frekar útsettir fyrir launaþjófnað, geta ekki fylgst með fréttum, eiga erfiðara með að taka þátt í félagsstörfum, verða utangátta í samfélaginu. Jafnframt getur það ástand, þegar stór hluti íbúa talar ekki tungumál landsins, haft í för með sér mjög neikvæðar hópamyndanir þar sem aðfluttum finnst þeir annars flokks þegnar.

Eitt það þýðingarmesta til koma í veg fyrir einangrun aðfluttra og neikvæðar hópamyndanir  er að kenna þeim íslensku. Þar hefur íslenskt samfélag ekki staðið sig nægilega vel. Í ágætum lögum nr. 27/2010 Um framhaldsfræðslu segir m.a.:

 2. gr. Markmið.
 Markmið framhaldsfræðslu samkvæmt lögum þessum er:
    a. að veita einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu,
    b. að veita einstaklingum á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu að baki viðeigandi námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju,
    c. að gefa einstaklingum færi á að efla starfshæfni sína og efla ábyrgð þeirra í því tilliti,
    d. að skapa svigrúm og úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni starfsmanna,
    e. að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni,
    f. að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis,
    g. að stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum og
    h. að efla menntunarstig í landinu og íslenskt menntakerfi.

Í þessum annars prýðilegu markmiðum er ekki fjallað sérstaklega um íslenskukennslu fyrir aðflutta. Hvað varðar kostnað vegna fræðslu á grundvelli þessara laga er sérstaklega tekið fram í 7. Gr. Um Viðurkenningu fræðsluaðila að „ Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi fræðsluaðila eða ábyrgð á skuldbindingum hans.“ Önnur lönd, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, hafa fyrir áratugum síðan áttað sig á þýðingu þess að kenna aðfluttum tungumál nýja landsins. Slík kennsla verður að fara fram á vinnutíma eða beinu framhaldi af vinnutíma, helst á vinnustað og vera hluti af starfskjörum. Ekki er hægt að ætlast til þess að innfluttir sæki slík námskeið á kvöldin eftir langan vinnudag. Það þarf að setja lög um íslenskukennslu aðfluttra, t.d. með því að gera breytingar á lögum um framhaldsfræðslu, og ríkið þarf að koma með fjármagn í verkefnið.

Til eru fyrirtæki á landinu sem hafa að eigin frumkvæði boðið starfsmönnum íslenskukennslu. Á heimasíðu ISAVIA segir um íslenskukennsla: Starfsfólki Isavia býðst að sækja íslenskunámskeið utan vinnutíma eða á vinnutíma þeim að kostnaðarlausu. Fyrsta námskeiðið hófst þann 11. október síðastliðinn (2022) og stendur í átta vikur. Í fyrsta námshópnum eru þrettán einstaklingar af fimm þjóðernum sem koma úr mismunandi deildum innan Isavia samstæðunnar.

Þegar litið er til þess að aðfluttir á vinnumarkaði koma hingað tilbúnir til starfa má segja að þeir séu ódýrasti/hagstæðasti vinnukraftur á íslenskum vinnumarkaði. Íslendingar, sem aldir eru upp og menntaðir á Íslandi, hafa „kostað“ samfélagið tugi milljóna, í barnaskóla, framhaldsskóla menntaskóla og háskóla áður en samfélagið nýtur vinnuframlags þeirra. Vissulega er menntun ekki „kostnaður“ heldur fjárfesting, en sú fjárfesting hefur haft útgjöld í för með sér fyrir samfélagið. Því er hægt að rökstyðja það að íslenskukennsla aðfluttra sé einnig mjög skynsamleg fjárfesting og mun „ódýrari“ en fjárfesting í innlendu vinnuafli. Það er siðferðilega óásættanlegt að samfélag okkar geri lítið sem ekkert til að auðvelda aðfluttum að aðlagast okkar samfélagi og stuðla með því að þeir geti tekið fullan þátt í íslensku samfélagi, verði eðlilegur hluti þess, ekki utangátta. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka sér tak, setja lög um verkefnið og vinda bráðan bug að því koma á íslenskukennslu fyrir aðflutta, þeim að kostnaðarlausu.

Steinar Harðarson er gjaldkeri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search