Search
Close this search box.

Vandar þú valið við fatakaup?

Deildu 

Háhraða tíska

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hraðtískuiðnað (e. fast fashion) og magnar það upp. Þetta þýðir hraðari og lélegri framleiðsla á fatnaði, meiri sviptingar í tísku tímabilum og örari endurnýjun í verslunum sem að lokum þýðir að fatnaður fer enn hraðar í landfyllingar. Fatnaður er framleiddur úr lélegu ofnu efni (ýmsum útgáfum af plasti) sem losar auðveldlega míkrótrefjar af þessu skaðlega efni í vatn og loft okkur öllum til skaða í áravís. Þetta þýðir einnig verri framkoma gagnvart verkafólki þar sem aðbúnaður og umhverfi hefur tekið nýjum lægðum, allt til að auka afköst með sem minnstum gæðum og mestum gróða fyrir eigendur, á kostnað barna og kvenna sem helst starfa þar við hrikalegu aðstæður. 

Ef hraðtískan er slæm þá er háhraða tískan hræðileg. Meðan hraðtískan sækir innblástur til hátískunnar og ber á borð ódýrari útgáfur hennar á fjórum árstíðum, reynir háhraða tískuiðnaðurinn að auka ofneyslu og höfða til fíknar fólks hvað varðar nýjan fatnað og örari tískutímabil. Af því fötin eru svo ódýr er reynt að selja alla litina eða allar gerðirnar af hverri flík eða útfærslu og oft nokkrar stærðir af sömu flík til að tryggja að ein passi. Þetta er svo innblásið af áhrifavöldum og samfélagsmiðlum, sem fá fatnaðinn gefins og auglýsa grimmt flíkur og tískustefnur sem breytast daglega. Nýjum fatnaði er ekki lengur stillt fram á fjórum árstíðum, heldur koma hundruðir eða þúsundir nýrra flíka daglega á síður þessara verslana. Þetta eru netverslanir sem við þekkjum vel; Shein og Temu sem dæmi. Orðspor þeirra bæði hvað varðar umhverfisvernd og aðbúnað verkafólks er agalegt. Þessi merki tengja samfélagsmiðla og áhrifavalda beint við neyslumenninguna og algóritminn færir núverandi og tilvonandi kaupendum hugmyndir um kaup á mun meiri hraða en hinar hefðbundnu árstíðarvörur koma fram í verslanir. Með þessari tengingu við áhrifavalda og samfélagsmiðla hefur kaupæði (e. shopping haul) verið gert að skemmtun án nokkurrar magnvitundar. Það er nefnilega oft óljóst hversu mikið er keypt, af hvaða gæðum og hvað er og verður raunverulega notað af þessu öllu saman. Þessi sömu fatamerki með sín lágu verð eru að gera fatasóun að sjálfsögðum hlut. Þarna er flík slitin eftir fáa þvotta (kannski bara einn þvott) eða hefur lokið gagni sínu eftir eitt skipti í notkun já eða aldrei og verður þannig að rusli með tilheyrandi þörf á að kaupa nýja flík. Það sem verra er að það er erfitt að vinna tölfræði um áhrif tísku og fatakaupa, þar sem áreiðanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir og erfitt að nálgast þær en giskað er á að hver flík sé að meðaltali notuð sjö sinnum og að fyrir hverjar fimm framleiddar flíkur í dag endi þrjár í landfyllingu eða brennsluofni. Þetta eru sláandi tölur og sýna fram á að við erum alls ekki á réttri leið þegar kemur að sjálfbærni og umhverfisvernd.

Kaupin þín hafa áhrif

Við þekkjum flest hugtakið grænþvott. Með grænþvotti er fólki talið í trú um að það sem um er fjallað sé betra fyrir umhverfið en það er. Siðferðisþvottur (e. ethic-washing) er minna þekkt hugtak um það þegar fólki er talið í trú um að vara sé framleidd á betri hátt en hún í raun er, þegar horft er til áhrifa framleiðslunnar á fólk og dýralíf. Aðferðir sem notaðar eru til siðferðis þvottar eru margar, t.d. að ýkja stórlega jákvæð áhrif framleiðslunnar, að snúa út úr sannleikanum, að sýna misvísandi myndir af framleiðslu, setja fram óljósar kröfur og fullyrðingar, sýna fram á loðnar vottanir, beina athygli frá því versta og gjarnan lykilatriðum eða einfaldlega ljúga. Fyrsta óljósa hugtakið sem gjarnan er sett fram eru sanngjörn laun sem getur þýtt að framleiðandi greiði smánarleg laun fyrir framleiðsluna vegna fátæktar og neyðar verkafólks en ekki sanngjörn laun sem duga til framfærslu viðkomandi. Háhraða tískuiðnaðurinn er líka skelfilegur hvað varðar hraðann sem honum fylgir. Þannig er fólki gert illmögulegt að íhuga kaup áður en þau eiga sér stað, slíkur er hraðinn og oft melding um að nú sé síðasta flíkin af þessari tegund eða stærð í körfunni… svo þá tekur fólk áhættuna og slær til því þegar flík kostar jafn mikið og samloka, hverju er þá verið að tapa? Þumalputtareglan er sú að sé ný flík ódýr er hún framleidd við bágar aðstæður sem bæði manneskjur og umhverfi hafa liðið fyrir.

Hvernig getum við stöðvað þennan háhraða tískuiðnað?

Lykilatriði í kauphegðun margra í dag er notkun samfélagsmiðla, með því að forðast myndbönd með áhrifavöldum sem stunda þessi magnkaup og smáforrit sem ýta undir kauplöngun er stórt skref stigið í átt að minni neyslu og ábyrgari kaupum. Að hætta að versla fatamerki sem vitað er að eru skaðleg fyrir fólk og umhverfi er einnig mikilvægt. Um leið og hægt er að finna fatamerki sem tryggt er að eru framleidd á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og versla frekar við verslanir sem selja þær. Það er nefnilega til mikils að vinna að draga úr neyslu og minnka sóun og við getum öll lagt okkar að mörkum. Við getum fækka hlutum sem við kaupum og endurnýtt það sem þegar er til með því að þrifta eða kaupa af annarri hendi (t.d. í gegn um sölusíður), af básaleigum eða loppusölum, verslunum með notaðan fatnað og nytjamörkuðum. Með því að þrifta erum við að draga úr umhverfisáhrifum, fjölga þeim skiptum sem varan er notuð og draga úr framleiðslu og urðun eða brennslu. Það er sem betur fer sífellt vinsælla að lifa umhverfisvænum lífstíl og þar er margt unga fólkið okkar fremst í flokki sem sannarlega er til fyrirmyndar já og mörg okkar eldri sem ólumst upp við nýtni og sparsemi. Um leið er viss hópur sem finnst sjálfsagt að versla háhraða tískufatnað með tilheyrandi slæmum áhrifum og telur sér í trú um að þetta sé hagsýni sem það sannarlega er ekki, alls ekki fyrir umhverfið og enn síður fyrir verkafólkið sem vinnur við bágar og ómannúðlegar aðstæður við að framleiða ódýra flík á mengandi hátt. Það er nefnilega hægt að gera afar góð kaup með því að þrifta og fyrir utan miklu minna kolefnisspor er hægt að gera afar góð kaup og um leið kaupa vandaðan fatnað.

Sláandi tölur!

Flest föt sem framleidd eru og seld í dag eru annað hvort brennd eða lenda í landfyllingu. Aðeins 8% fatnaðar fara í endursölu, 10% fatnaðar sem koma á endurvinnslustaði er endurunnin á einhvern hátt og minna en 1% notaðs fatnaðar er nýtt í endurhönnun, sem vonandi fer að verða vinsælli. Við þurfum sárlega að efla hringrásar tískuiðnaðinn með því að þrifta, gera við fatnað og breyta honum ef þarf, skiptast á, endurvinna og leigja fatnað. Sem betur fer er margt jákvætt að gerast og ábyrgir framleiðendur horfa til þess að lágmarka vistsporið og bjóða upp á gæðavörur, lífrænt vottaða framleiðslu eða sanngjarna viðskiptahætti (e. fair trade). Hönnuðir tala um „línulausa nálgun” eða „árstíðalausa nálgun” þar sem áhersla er lögð á vandaðan og sígildan fatnað sem endist lengur (e. slow fashion). Einnig spretta fram básaleigur, sölusíður og fataleigur sem gera fólki auðvelt fyrir að bæði nálgast og losa sig við fatnað á ábyrgan hátt. En til þess að að haldið verði áfram á þessari braut er mikilvægt að við sýnum í verki og með innkaupum að við sniðgöngum framleiðslu sem er skaðleg umhverfi og náttúru og þar sem mengunarvarnir, launakostnaður og vinnuaðstaða starfsfólks er bágborin. Við verðum líka að kaupa sjaldnar og minna, vera ábyrgir neytendur. Við einfaldlega getum ekki endurunnið okkur í gegn um þetta mikla vandamál sem fataiðnaðurinn og offramleiðsla er. En með því að þrifta, nota lengur, kaupa minna, endurnýta og styðja við fyrirtæki sem stuðla að endursölu, endurhönnun, viðgerðum og með því að skiptast á eða leigja fatnað erum við að leggja okkar að mörkum við að draga úr mengun, sóun og urðun fyrir okkur öll og framtíðina.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search