Í ár eru liðin 25 ár frá því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna komu sér saman um Peking-yfirlýsinguna og framkvæmdaáætlunina um jafnrétti, þróun og frið. Þessa er minnst á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, samhliða því sem verkefni Sameinuðu þjóðanna til næstu fimm ára eru skilgreind undir yfirskriftinni „Kynslóð jafnréttis“ (e. Generation equality). Ísland hefur sóst eftir að taka að sér leiðtogahlutverk innan þess verkefnis og þá sérstaklega er lýtur að baráttunni gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi.
Skipulag verkefnisins fer þó fram í skugga bakslags gegn réttindum kvenna og reyndar mannréttindum almennt. Afturhaldssöm viðhorf eru að ná fótfestu að nýju, ekki síst þar sem öfgahreyfingum vex fiskur um hrygg í mörgum löndum heims. Innan Sameinuðu þjóðanna hefur verið myndað bandalag ríkja og berst það gegn kyn- og frjósemisréttindum kvenna og leitast þannig við að takmarka rétt kvenna til yfirráða yfir eigin líkama. Þar er því háð varnarbarátta fyrir áunnum réttindum, á tímum þar sem við ættum að sækja fram og styrkja enn frekar mannréttindi kvenna og stúlkna um allan heim. Ný lög um þungunarrof hérlendis eru mikilvæg í þessu sambandi; að sækja fram þegar aðrir vilja fara aftur á bak.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna birta þessa helgi sameiginlega grein til varnar réttindum kvenna. Er þar vísað til árangurs Norðurlandanna þegar kemur að jafnrétti kynjanna en þau eru leiðandi í málaflokknum á heimsvísu. Greinin er birt á vefsvæði CNN og áréttar sérstaklega stuðning allra landanna á Norðurlöndum við kyn- og frjósemisréttindi kvenna. Á tímum sem þessum er mikilvægt að Norðurlöndin haldi því á lofti að kynjajafnrétti hefur gert norræn samfélög sterkari í efnahagslegu og pólitísku tilliti, ásamt því að stuðla að bættum lífsgæðum, bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þessa sögu þarf að segja á alþjóðlegum vettvangi í því skyni að þrýsta á um réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og að hvetja önnur ríki til að nálgast kynjajafnréttismál með kerfisbundnum hætti, til að mynda með uppbyggingu fæðingarorlofs og leikskóla.
Með því er ekki sagt að björninn sé unninn á Norðurlöndunum, því fer fjarri. Stóru verkefni næstu ára lúta að meðal annars að því að tryggja samtvinnun (e. intersectionality) innan jafnréttismála og útfæra þannig nánar vernd gegn margþættri mismunun. Breikka þarf umræðu um launajafnrétti og ráðast gegn heildarlaunamun á tekjum karla og kvenna og taka þá ólaunaða vinnu kvenna með í reikninginn. Síðast en ekki síst þarf að stórefla baráttuna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Það er óþolandi að engu ríki hafi tekist að útrýma slíku ofbeldi, sem er bæði orsök og afleiðing misréttis kynjanna. Í gær samþykkti ríkisstjórnin metnaðarfulla áætlun í forvarnamálum sem ég mun leggja fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu. Með forvörnum er leitast við að koma í veg fyrir ofbeldi en einnig að draga úr þeim skaða sem slík háttsemi hefur á þolendur og aðstandendur þeirra. Samhliða vinnum við að því að styrkja löggjöf til að vernda kynferðislega friðhelgi einstaklinga og tryggja réttarstöðu brotaþola. Allar þessar aðgerðir eru til þess fallnar að sporna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, en það er verkefni sem kallar á samhent átak og þátttöku okkar allra.
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, sendum við samstöðu- og baráttukveðjur til allra þeirra samtaka og einstaklinga sem berjast gegn kynbundnu misrétti í löndum heim. Og við sameinumst um að halda áfram og láta ekki staðar numið fyrr en fullu jafnrétti hefur verið náð.
Höfundur er forsætisráðherra.