Search
Close this search box.

Varnarbaráttan fyrir réttindum kvenna

Deildu 

Í ár eru liðin 25 ár frá því að aðild­ar­ríki Sam­einuðu þjóðanna komu sér sam­an um Pek­ing-yf­ir­lýs­ing­una og fram­kvæmda­áætl­un­ina um jafn­rétti, þróun og frið. Þessa er minnst á alþjóðleg­um bar­áttu­degi kvenna, 8. mars, sam­hliða því sem verk­efni Sam­einuðu þjóðanna til næstu fimm ára eru skil­greind und­ir yf­ir­skrift­inni „Kyn­slóð jafn­rétt­is“ (e. Generati­on equality). Ísland hef­ur sóst eft­ir að taka að sér leiðtoga­hlut­verk inn­an þess verk­efn­is og þá sér­stak­lega er lýt­ur að bar­átt­unni gegn kyn­bundnu og kyn­ferðis­legu of­beldi.

Skipu­lag verk­efn­is­ins fer þó fram í skugga bak­slags gegn rétt­ind­um kvenna og reynd­ar mann­rétt­ind­um al­mennt. Aft­ur­halds­söm viðhorf eru að ná fót­festu að nýju, ekki síst þar sem öfga­hreyf­ing­um vex fisk­ur um hrygg í mörg­um lönd­um heims. Inn­an Sam­einuðu þjóðanna hef­ur verið myndað banda­lag ríkja og berst það gegn kyn- og frjó­sem­is­rétt­ind­um kvenna og leit­ast þannig við að tak­marka rétt kvenna til yf­ir­ráða yfir eig­in lík­ama. Þar er því háð varn­ar­bar­átta fyr­ir áunn­um rétt­ind­um, á tím­um þar sem við ætt­um að sækja fram og styrkja enn frek­ar mann­rétt­indi kvenna og stúlkna um all­an heim. Ný lög um þung­un­ar­rof hér­lend­is eru mik­il­væg í þessu sam­bandi; að sækja fram þegar aðrir vilja fara aft­ur á bak.

For­sæt­is­ráðherr­ar Norður­land­anna birta þessa helgi sam­eig­in­lega grein til varn­ar rétt­ind­um kvenna. Er þar vísað til ár­ang­urs Norður­land­anna þegar kem­ur að jafn­rétti kynj­anna en þau eru leiðandi í mála­flokkn­um á heimsvísu. Grein­in er birt á vefsvæði CNN og árétt­ar sér­stak­lega stuðning allra land­anna á Norður­lönd­um við kyn- og frjó­sem­is­rétt­indi kvenna. Á tím­um sem þess­um er mik­il­vægt að Norður­lönd­in haldi því á lofti að kynja­jafn­rétti hef­ur gert nor­ræn sam­fé­lög sterk­ari í efna­hags­legu og póli­tísku til­liti, ásamt því að stuðla að bætt­um lífs­gæðum, bæði fyr­ir ein­stak­linga og fjöl­skyld­ur. Þessa sögu þarf að segja á alþjóðleg­um vett­vangi í því skyni að þrýsta á um rétt­indi kvenna og stúlkna um all­an heim og að hvetja önn­ur ríki til að nálg­ast kynja­jafn­rétt­is­mál með kerf­is­bundn­um hætti, til að mynda með upp­bygg­ingu fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla.

Með því er ekki sagt að björn­inn sé unn­inn á Norður­lönd­un­um, því fer fjarri. Stóru verk­efni næstu ára lúta að meðal ann­ars að því að tryggja sam­tvinn­un (e. in­ter­secti­ona­lity) inn­an jafn­rétt­is­mála og út­færa þannig nán­ar vernd gegn margþættri mis­mun­un. Breikka þarf umræðu um launa­jafn­rétti og ráðast gegn heild­ar­launamun á tekj­um karla og kvenna og taka þá ólaunaða vinnu kvenna með í reikn­ing­inn. Síðast en ekki síst þarf að stór­efla bar­átt­una gegn kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni. Það er óþolandi að engu ríki hafi tek­ist að út­rýma slíku of­beldi, sem er bæði or­sök og af­leiðing mis­rétt­is kynj­anna. Í gær samþykkti rík­is­stjórn­in metnaðarfulla áætl­un í for­varna­mál­um sem ég mun leggja fram á Alþingi í formi þings­álykt­un­ar­til­lögu. Með for­vörn­um er leit­ast við að koma í veg fyr­ir of­beldi en einnig að draga úr þeim skaða sem slík hátt­semi hef­ur á þolend­ur og aðstand­end­ur þeirra. Sam­hliða vinn­um við að því að styrkja lög­gjöf til að vernda kyn­ferðis­lega friðhelgi ein­stak­linga og tryggja rétt­ar­stöðu brotaþola. All­ar þess­ar aðgerðir eru til þess falln­ar að sporna gegn kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni, en það er verk­efni sem kall­ar á sam­hent átak og þátt­töku okk­ar allra.

Á alþjóðleg­um bar­áttu­degi kvenna, 8. mars, send­um við sam­stöðu- og bar­áttu­kveðjur til allra þeirra sam­taka og ein­stak­linga sem berj­ast gegn kyn­bundnu mis­rétti í lönd­um heim. Og við sam­ein­umst um að halda áfram og láta ekki staðar numið fyrr en fullu jafn­rétti hef­ur verið náð.

Höf­und­ur er for­sæt­is­ráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search