Search
Close this search box.

Vatnajökulsþjóðarður á heimsmælikvarða

Deildu 


Náttúra Íslands er mögnuð. Hér koma saman kraftar elds og íss. Fjölbreytni í landslagi lætur engan ósnortinn og mikill munur getur verið á upplifun frá degi til dags einungis vegna veðurs.

Náttúran okkar hlaut mikilvæga alþjóðalega viðurkenningu í gær þegar Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) samþykkti að taka Vatnajökulsþjóðgarð inn á skrá yfir svæði sem hafa einstakt gildi fyrir mannkynið. Þetta er gríðarstór viðburður í íslenskri náttúruvernd, þar sem 12% landsins fara nú inn á heimsminjaskrá UNESCO sem einstakar náttúruminjar. Vil ég færa öllum þeim sem að tilnefningu þjóðgarðsins komu mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra.

Náttúra svæðisins sem nú fer inn á heimsminjaskrána er stórbrotin. Ævintýralegar hraunmyndanir, svartir sandar, fágætar gróðurvinjar og víðerni öðlast nýjan sess, að ógleymdu samspili elds og íss sem minjar um stórkostleg hamfarahlaup úr jöklum bera glöggt vitni. Jökullinn sjálfur geymir síðan ótrúlega sögu, bæði úr fortíð og nútíð þar sem ummerki um hopun hans vegna loftslagsbreytinga minna okkur á verkefnið fram undan.

Stjórnfyrirkomulag sem markaði tímamót í íslenskri náttúruvernd

Í Vatnajökulsþjóðgarði eru fjölmargir starfsmenn sem samtals mynda um 53 ársverk. Ríflega 90% þeirra eru á landsbyggðinni. Rannsóknir hérlendis sýna að fyrir hverja krónu sem hið opinbera leggur til friðlýstra svæða skila sér að meðaltali 23 krónur til baka í þjóðarbúið. Hluti þess verður eftir heima í héraði og því er náttúruvernd einnig stórt byggðamál.

Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið efld í tíð núverandi ríkisstjórnar, með auknum fjárframlögum, fjármagni til uppbyggingar innviða og aukinnar landvörslu. Allt skilar sér þetta í bættri þjónustu við bæði náttúru og menn. Í síðustu viku hlotnaðist mér sá heiður að undirrita reglugerð sem stækkaði þjóðgarðurinn um sem nemur 0,5% af Íslandi. Drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, bættist við þjóðgarðinn, auk Herðubreiðarlinda og víðerna í Ódáðahrauni.

Sú viðurkenning sem náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs fékk í gær með því að vera bætt inn á heimsminjaskrána er mikilvæg hvatning til okkar allra að standa að myndugleik að starfsemi þjóðgarðsins og vernd þessarar einstöku náttúruperlu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search