Search
Close this search box.

Velferðarfjárlög

Deildu 

Gert er ráð fyrir 180 milljarða halla á ríkissjóði á næsta ári, það nemur um 5% af VLF. Þrátt fyrir það gera fjárlög ársins 2022 ráð fyrir áframhaldandi fjárfestingum af hálfu ríkisins, fyrst og fremst í velferðarþjónustu.

Ný heilbrigðisstefna til 2030 markar stefnu fyrir heilbrigðiskerfið á komandi árum. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er eins og áður bygging nýs Landspítala, en gert er ráð fyrir að verja til þess 14 milljörðum árið 2022, þá fær Landspítalinn 2,6 milljarða framlag til að bregðast við heimsfaraldrinum með opnun sex hágæslurýma, 30 nýrra endurhæfingarrýma og sérstakrar farsóttardeildar í Fossvogi. Talsverð aukning er til heilsugæslunnar, eða um 800 milljónir, sem miðar að því að lækka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga og að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Áfram er aukið í framlög til geðheilbrigðisþjónustunnar, ekki síst fyrir börn og ungmenni, og þá er sérstök áhersla á að efla forvarnir og styrkja geðheilsuteymi út um land.

Sú viðbótarhækkun sem kemur á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nú um áramótin fer sannarlega í vasann þar sem skerðingarhlutfall af grunnlífeyri og aldurstengdrar örorkuuppbótar fer úr 25% í 11%. Þetta eru fyrstu skrefin í áttina að gagnsærra og réttlátara kerfi sem að tekið verður til gagngerrar endurskoðunar á kjörtímabilinu. Einnig verður frítekjumark eldri borgara tvöfaldað nú um áramótin og verður þá 200 þúsund.

Síðan heimsfaraldurinn skall á hefur ríkisfjármálunum verið beitt af áður óþekktum krafti sem hefur skilað sér bæði í auknum efnahagsumsvifum og betri skuldastöðu en áður var gert ráð fyrir. Atvinnulífið hefur tekið við sér og atvinnuleysi minnkað. Það er afar mikilvægt að endurheimta styrka fjárhagsstöðu ríkissjóðs og tryggja sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma og til þess þurfum við aukna verðmætasköpun. Að sama skapi þurfum við að styðja við umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu. Það er forgangsmál ríkisstjórnarinnar að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þannig tryggjum við velferð almennings í neyðarástandi, í kreppu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search