Search
Close this search box.

Velsæld og verðmætasköpun nýrra tíma

Deildu 

Undanfarin misseri hafa einkennst af óvissu og viðbrögðum við áður óþekktum aðstæðum og verulega hefur reynt á þanþol samfélagsins alls, heilbrigðiskerfið, skólana, atvinnulífið og heimilin. Þrátt fyrir bakslag í faraldrinum með nýju afbrigði sem nú herjar á okkur skulum við hafa hugfast að margt hefur gengið okkur í haginn í þessari baráttu. Bólusetningar hafa gengið vel og veita góða vörn gegn alvarlegum veikindum. Samstaða hefur verið um að leggja traust á vísindin, setja líf, heilsu og velferð í forgrunn og efnahagsaðgerðir hafa verið árangursríkar. Markvissar stuðnings- og vinnumarkaðsaðgerðir stjórnvalda og fjárfestingar sem leggja munu grunn að verðmætasköpun til framtíðar hafa skilað sér í mun betri stöðu efnahags- og atvinnulífs en útlit var fyrir framan af.

Verkefninu er hins vegar ekki lokið. Áfram verða umtalsverðar áskoranir á nýju ári, bæði í þeim atvinnugreinum sem verða fyrir mestum áhrifum af sóttvarnarráðstöfunum en einnig hefur sá leiði gestur, veiran sjálf, áhrif á hagkerfið allt. Vísbendingar um meiri streitu, einmannaleika og verri andlega heilsu landsmanna þarf líka að taka alvarlega.

Framundan eru ýmsar stórar áskoranir aðrar en heimsfaraldur. Loftslagsvá og tæknibreytingar eru risavaxin sameiginleg viðfangsefni okkar allra. Þó að við hér á Íslandi séum lítil í stóra samhenginu getum við verið í fremstu röð, sýnt metnað og tryggt að umskiptin sem þessum breytingum fylgja verði á réttum forsendum. Réttlát umskipti eru leiðarstef nýs stjórnarsáttmála sem merkir að við ætlum að byggja okkar aðgerðir á jafnrétti og jöfnum tækifærum, mannréttindum og lýðræði.

Halda þarf áfram að efla og styrkja umhverfi rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina og búa til jarðveg fyrir nýjar grænar atvinnugreinar sem byggjast á hugviti og tækniþróun.

Við ætlum að takast á við þessi stóru verkefni af festu og leggja grunn að velsæld og verðmætasköpun nýrra tíma. Stjórnvöld hafa kynnt nýja velsældarmælikvarða sem ætlað er að meta og mæla ólíka þætti, sem tengjast samfélagi, efnahag og umhverfi og hafa áhrif á hagsæld og lífsgæði landsmanna í mun víðara samhengi en hinn hefðbundni mælikvarði landsframleiðslu og hagvaxtar. Þar mælum við til dæmis jafnvægi vinnu og einkalífs, brotthvarf úr framhaldsskóla, losun gróðurhúsalofttegunda, húsnæðisaðstæður og kaupmátt almennings. Velsældaráherslurnar eru samþættar inn í fjármálaáætlun ríkisins til þess að tryggja eflingu tiltekinna þátta sem stjórnvöld telja brýnt að leggja sérstaka áherslu á hverju sinni. Þessi stefnumótun tryggir velsæld alls almennings.

Á sama tíma þarf að efla verðmætasköpun. Það gerum við með því að halda áfram að efla og styrkja umhverfi rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina og búa til jarðveg fyrir nýjar grænar atvinnugreinar sem byggjast á hugviti og tækniþróun. Það hefur verið innblástur að fylgjast með vexti hugverkageirans sem byggir á öflugu samspili grunnrannsókna og nýsköpunar. Mikil sóknarfæri eru í eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og þar er fjölbreytni lykilatriði. Ferðaþjónusta, margar þjónustugreinar og skapandi greinar hafa orðið fyrir þungi höggi vegna heimsfaraldurs og stjórnvöld munu áfram styðja við þær.

Uppstokkun Stjórnarráðsins eftir kosningar síðastliðið haust er meðal annars ætlað að gera okkur kleift að nýta þessi tækifæri, hugsa hlutina upp á nýtt, tryggja þverfaglega samvinnu og aukinn sveigjanleika. Allt þjónar þetta því markmiði að tryggja fjölbreyttari stoðir undir atvinnu- og efnahagslíf.

Um leið þurfum við að skapa umhverfi þar sem allar atvinnugreinar geta orðið grænar. Þannig sköpum við framtíðarlandið sem verður eftirsóknarverður staður með samfélag, umhverfi og efnahag í jafnvægi. Ný ríkisstjórn hefur einsett sér að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en 2040. Sett verður sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands og áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira efnahagslífsins. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að ná þessum nauðsynlegu markmiðum og þar munu gott samráð og samstarf við atvinnurekendur og verkalýðshreyfingu, sveitarfélög, félagssamtök og almenning gegna lykilhlutverki.

Á Íslandi höfum við búið að því að hafa sterkan vinnumarkað með öflugri verkalýðshreyfingu sem stendur vörð um réttindi og kjör sinna félagsmanna í samningum við samtök atvinnurekenda og samtali við stjórnvöld.

Umbreytingar vegna tækni- og loftslagsbreytinga hafa áhrif á flestum sviðum samfélagsins og breyta því hvernig við tölum saman og hvernig við framleiðum hluti. Þær breyta neysluvenjum okkar og ekki síst vinnunni okkar. Vinnumarkaðurinn tekur þannig örum breytingum og afleiðingarnar eru okkur enn ekki að fullu ljósar. Á Íslandi höfum við búið að því að hafa sterkan vinnumarkað með öflugri verkalýðshreyfingu sem stendur vörð um réttindi og kjör sinna félagsmanna í samningum við samtök atvinnurekenda og samtali við stjórnvöld. Við þurfum áfram í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins að stuðla vönduðum vinnubrögðum og réttlátum leikreglum á vinnumarkaði. Þannig tryggjum við best góð lífskjör og réttlát umskipti í breytingunum framundan.

Breytingar geta borið með sér ógnir og tækifæri. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem breytingar gagnast samfélaginu öllu, að þau tækifæri sem þær fela í sér nýtist öllum og við fylgjum skýrri framtíðarsýn. Að tryggja að breytingarnar auki verðmætasköpun sem öll fá sanngjarna hlutdeild í og treystir velsæld alls almennings. Þetta er verkefni næstu ára og þar skiptir máli að við tökum góðar ákvarðanir, landi og þjóð til heilla.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna og forsætisráðherra. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search