Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að smit af völdum COVID-19-kórónuveirunnar hafa nú greinst hér á landi. Um 100.000 manns um allan heim hafa smitast af veirunni og í gær, 6. mars, lýsti embætti ríkislögreglustjóra yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis en það er gert þegar hópsýking er farin að breiðast út innanlands. Neyðarstig almannavarna merkir meðal annars að fyrirtæki og stofnanir hafa það hlutverk að herða á sínum vörnum til þess að hefta megi útbreiðslu smita eins og kostur er.
Flest smitin sem greinst hafa hérlendis eru enn sem komið er bundin við ferðalanga sem hafa komið til landsins nýlega frá Norður-Ítalíu eða Austurríki og í gær var staðan sú að smitin sem hafa átt sér stað innanlands má rekja til samskipta við fólk sem var að koma af þeim svæðum erlendis þar sem smit hefur greinst.
Embætti landlæknis heldur úti fræðsluvef um COVID19-kórónaveiruna á heimasíðunni sinni, landlaeknir.is, en þar má finna nýjustu upplýsingar og fræðslu um veiruna. Fræðsluefni má einnig finna á Facebook-síðu Embættis landlæknis og sóttvarnalæknir hefur upplýst almenning um málið í fjölmiðlum oft og vel. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur boðað til blaðamannafunda reglulega vegna málsins þar sem farið er yfir stöðuna, nú síðast í gær, auk þess sem ýmsar stofnanir og fyrirtæki hafa birt fræðsluefni á sínum heimasíðum, til dæmis Landspítali og RÚV.
Upplýsingar og fræðslu um veiruna er því að finna á hinum ýmsu stöðum og miðlum og ég hvet alla til að kynna sér slíkar upplýsingar. Nú skiptir öllu máli að almenningur gæti að almennu hreinlæti og smitvörnum og það þurfum við öll að taka til okkar. Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti.
Mikilvægt er að hósta eða hnerra í olnbogabót eða í pappír, forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta, gæta hreinlætis og forðast snertingu við augu, nef og munn, varast snertifleti á fjölförnum stöðum og heilsa frekar með brosi en handabandi.
Í þessu samhengi langar mig að þakka sérstaklega heilbrigðisstarfsfólki fyrir þeirra vinnu. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar stendur í ströngu þessa dagana og álagið er mikið. Framlag þess er mikilvægt og við ættum öll að muna að þakka fyrir það.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra