Search
Close this search box.

Verndun hafsins og líffræðileg fjölbreytni

Deildu 

Við lifum á tímum þar sem aðgerðir gegn hruni vistkerfa og hamfarahlýnun eru ekki bara orðnar nauðsyn, heldur verða þær meira aðkallandi dag frá degi. Liður í þeim aðgerðum er að koma á styrkari verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu.  

Þriðjungur hafsvæðis Íslands skal verndað

Um nokkurt skeið hefur starfshópur á vegum matvælaráðuneytisins unnið að framtíðarsýn um vernd hafssvæða og hefur lokaskýrslu verkefnisins verið skilað til mín. Skýrslan sýnir fram á nauðsyn þess að stíga skref í átt að heildstæðri stefnu fyrir hafsvæðin við Ísland og tryggja að þau njóti viðeigandi verndar. Kortlagning svæða með hátt verndargildi og skipulögð rannsóknarvinna á þeim svæðum eru lykilþættir stefnunnar. 

Markmiðið er skýrt: Að vernda 30% hafsvæða innan efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030, í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Breytingar á umhverfinu eiga sér stað fyrir framan augun á okkur. Vísindalegar staðreyndir sýna alvarleika þeirra sviðsmynda sem munu raungerast ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða í loftslags- og lífríkismálum. Við getum ekki leyft okkur þann munað að líta undan.  

Tímabær og verðskulduð athygli til sjávar

Við Íslendingar höfum góða reynslu af því að vernda nytjastofna í hafinu. Megininntak fiskveiðistjórnunarkerfisins er að vernda lífríkið og hefur það gefið góða raun. Þannig tryggjum við að ekki sé gengið of nærri nytjastofnum sjávar og búsvæðum þeirra tegunda sem þar búa. Það sama gildir um verndun hafsvæða. 

Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt tillögu mína um að hefja vinnu við mótun heildstæðrar stefnu fyrir hafið. Þessi stefna mun taka mið af tillögum skýrslunnar og leggja grunninn að markvissri vernd hafsvæða og þeirra vistkerfa sem þar eru undir. Ísland hefur alla burði til að vera leiðandi í verndun hafsins.

En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst markvissrar vinnu, þverfaglegrar samvinnu og sterkrar stjórnunar með vistkerfisnálgun að leiðarljósi eins og skýrslan leiðir í ljós. Það er okkar að tryggja að komandi kynslóðir erfi haf sem er bæði lífvænlegt og auðugt. Með því að taka ábyrgð á verndun hafsvæða sýnum við að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra VG

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 22. ágúst 2024

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search