PO
EN

Vestmannaeyjar: Samgöngur enn og aftur

Deildu 

Enginn er eyland – er fræg setning eftir breskan rithöfund og kennimann og ber að skilja í óeiginlegri merkingu. Við erum öll í einhvers konar samfélagi við aðra menn. Eiginlegir eyjabúar standa aftur á móti, og bókstaflega, frammi fyrir stæðhæfingunni og samtímis nokkrum vanda: Þeir þurfa að komast leiðar sinnar til annarra landsvæða, oft eða sjaldan. Við Ísland, eins og annars staðar, var sjórinn lengst af eina færa leið í land. Þannig verður það áfram að viðbættu flugi. Jarðgöng til hinna þriggja byggðu eyja hér við land koma ekki til greina, af augljósum ástæðum þar sem fjarlægð til lands eða fámenni hamla en í tilviki Vestmannaeyja stendur náttúran í vegi.

Þrenn jarðfræðileg rök mæla gegn jarðgangagerð milli lands og Eyja. Fyrst bera að telja lítt hörnuðu setbergslögin sem liggja ofan á gömlum blágrýtisberggrunni á öllu botnsvæði eyjanna. Þau eru 200 til 700 m þykk, úr jökulurð og sjávarsetlögum. Slíkur stafli er með öllu óhentugur fyrir jarðgöng. Við bætist að Eyjarnar sem stakar goseiningar eru að mestu úr móbergi (harnaðri gjósku). Heimaey er að hluta mynduð úr hrauni sem tengdi saman eldri móbergseiningar. Jarðgangagerð í móbergi er ekki stunduð og mestar líkur á að það sé of erfitt viðureignar, einkum þó neðansjávar. Loks skal nefnt að eldstöðvakerfi Eyja er með virkum sprungureinum. Þar verða hreyfingar á brotalínum eins og skjálftagögn staðfesta. Áhætta við gerð og rekstur jarðganga í virku eldstöðvakerfi er of mikil. Samsett göng á sjávarbotni í grunnu og oft ólmu úthafi koma ekki til greina.

Endurbætur á Landeyjahöfn og viðhald hennar er meginkosturinn sem blasir við okkur. Þess vegna varð til samstaða allar þingmanna kjödæmisins um óháða úttekt á höfninni og tillögur um úrbætur. Þær hljóta að vera mögulegar að tilteknu marki. Hvernig sem fer má gera ráð fyrir verulegum kostnaði til langrar framtíðar við þessa höfn móti opnu hafi á flatri sandströnd með miklum setflutningum í sjó. Því verður íslenskt samfélag að una.

Flug milli lands og Eyja verður að vera nothæft sem hluti almenningssamgangna, með eða án niðurgreiðslna. Nú verður reynslu safnað af 50% niðurgreiðslu tiltekins fjölda flugferða heimamanna (skoska leiðin) og áfram bundnar vonir við öflugar flugsamgöngur við Eyjar. Við bætist svo tilraunarverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi. 

Það er og verður áskorun að halda uppi ásættanlegum samgöngum milli Eyja og lands. Góð samstaða í öllum geirum samfélagsins er þar ein helsta forsenda fyrir árangri.

Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search