Þau stefnumál sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sett á oddinn fyrir sveitarstjórnarkosningar á laugardaginn næsta eiga erindi í öllum sveitarfélögum. Hvort sem það er stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, eða þau minni. Sama hvort sveitarfélög takast á við uppbyggingu innviða, skuldastöðu, fjölgun eða fækkun íbúa, þá þurfa sjónarmið VG að vera við borðið. Þessi sjónarmið eru annars vegar félagslegt réttlæti, jöfnuður og kvenfrelsi. Hins vegar eru það grænu sjónarmiðin, loftslagsmál, náttúruvernd í heimabyggð, úrgangsmál og fleira.
Húsnæðismál brenna á öllum
Við þurfum að ganga lengra í því að minnka húsnæðisbyrði á mið- og lágtekjufólki. Hlutfall þeirra í lægsta tekjufimmtungi, sem búa við íþyngjandi heimiliskostnað, hefur lækkað um tíu af hundraði síðustu fimm ár samkvæmt Hagstofunni. Þetta hlutfall er ennþá of hátt til að vera ásættanlegt. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að enginn þurfi að greiða meira en þriðjung af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað. Það markmið mun ekki nást ef uppbygging húsnæðis verður alfarið í höndum markaðarins. Til þess að jöfnuður ríki þarf jöfnuður að vera á dagskrá í sveitarstjórn. Við í VG viljum tryggja óhagnaðardrifnum leigufélögum lóðir og þannig styðja við uppbyggingu á leigufélögum á félagslegum forsendum. Með því að ganga lengra í að byggja upp heilbrigðari fasteignamarkað verður betur tryggt að allir íbúar hafi jöfn tækifæri.
Þannig þarf einnig að vinna að því að bæta hag barnafjölskyldna. En samkvæmt gögnum Hagstofunnar hefur staða barnafjölskyldna á húsnæðismarkaði ekki batnað að sama marki og staða annarra. Til þess að bæta þeirra hag er mikilvægt að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla. En einnig að stíga skref í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum og leikskóla. Í þeim efnum þarf að forgangsraða í þágu þeirra sem hafa minnstar tekjur og þurfa þannig mest á aðstoð að halda. Með þeim hætti göngum við lengra í því að skapa jöfnuð.
Sveitarfélög og loftslagsmál
Næsta kjörtímabil er afgerandi í því hvort íslenskt samfélag nær markmiðum sínum í loftslagsmálum. Sveitarfélög geta haft mikið um það að segja með ákvörðunum sínum um uppbyggingu almenningssamgangna, reglusetningu í deilihagkerfinu og skipulagsmálum. Með því að draga úr umferð drögum við úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Með því að byggja hverfi upp sem „15 mínútna“ hverfi og styrkja almenningssamgöngur sláum við tvær flugur í einu höggi. Við drögum úr umferð og þannig útblæstri gróðurhúsalofttegunda en drögum líka úr kostnaði almennings við samgöngur. En kostnaður við samgöngur er meira íþyngjandi fyrir lægri tekjuhópa en þá hærri.
Setjum X við V á laugardaginn, kjósum með jöfnuði og bættum hag almennings.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG í Reykjavík og matvælaráðherra.