Kjördæmisþing Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi ákvað á fundi nú síðdegis að hafa forval í efstu sæti á framboðslista hreyfingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar 25. september næstkomandi. Áður höfðu Vinstri græn í Norðausturkjördæmi og Vinstri græn í Suðurkjördæmi ákveðið forval, svo þetta er þriðja kjördæmið, þar sem VG velur forval sem aðferð. Norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmin hafa ekki enn ákveðið hvernig vali á framboðslista verður háttað.
VG í Suðvesturkjördæmi kaus sér stjórn á fundinum síðdegis. Björg Sveinsdóttir, Hafnarfirði er nýr formaður kjördæmisráðsins, en aðrir í stjórn eru Anna Þorsteinsdóttir, Kópavogi, Ásbjörn Þ. Björgvinsson, Kópavogi, Ástvaldur Lárusson, Hafnarfirði, Egill Arnarson, Seltjarnarnesi, Gunnsteinn Ólafsson, Garðabæ og Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir, Mosfellsbæ.