Search
Close this search box.

VG gengur lengra í strandveiðum

Deildu 

Það var ánægjulegt að undirrita á dögunum reglugerð um strandveiðar sem boðar stærri pott fyrir sumarið. Alls verða því 10.000 tonn af þorski í strandveiðipottinum á þessu tímabili, þar af 1.500 tonn sem skiluðu sér af skiptimörkuðum á útmánuðum og ákveðið var að bæta í strandveiðipottinn.Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nemur því 4,5% og hefur ekki hefur svo stórum hluta aflans áður verið úthlutað til strandveiða.

Strandveiðar skipta máli

Þessi ákvörðun miðar að því að festa strandveiðar enn betur í sessi líkt og stefna Vinstri grænna boðar. Strandveiðar skipta mörg byggðalög miklu máli þar sem allmargar fjölskyldur í minni sjávarbyggðum fá hluta sinna heimilistekna af strandveiðum.

Strandveiðar eru stundaðar frá maí til ágúst og brátt hefst fjórtánda strandveiðisumarið frá því strandveiðum var komið á. Grunnhugsunin að baki strandveiðum er að stunda megi veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt en jafnframt opna möguleika fyrir þau sem ekki hafa yfir aflamarki að ráða á að reyna fyrir sér í sjávarútvegi og stuðla þannig að nýliðun í greininni.

Tryggjum hvata til orkuskipta á strandveiðum

Til að auka enn frekar á sjálfbærni strandveiða þarf að tryggja hvata í kerfinu í átt til orkuskipta. Þegar eru komin af stað verkefni á Íslandi sem miða að orkuskiptum í smábátum og lofa góðu. Orkuskipti í sjávarútvegi eru mikilvægt loftslagsmál sem og mikilvægt fæðuöryggismál. Með þeim hætti gætu strandveiðar, sem nú þegar eru með létt kolefnisspor, verið enn loftslagsvænni.

Markmið strandveiða er göfugt og vilji VG til að efla þær er skýr. Á sama tíma og við leitum leiða til að festa atvinnugreinina betur í sessi er mikilvægt að rýna í það hverju þær raunverulega skila og hvort og hvar þá, vannýtt sóknarfæri liggja. Þegar nálega tuttugasti hver þorskur sem dregin er að landi er úr strandveiðikerfinu þarf að gera ríkar kröfur um að þessi verðmæti verði sem mest. Einnig er mikilvægt að greina samhengi við aðra þætti byggða- og atvinnutengdra potta. Undirbúningur að þessari vinnu er farin af stað í ráðuneytinu.

Mikilvægt er að strandveiðar verði áfram tryggðar í þágu byggða, sjálfbærni og fæðuöryggis.

Helgi Hlynur Ásgrímsson er oddviti VG í Múlaþingi.

Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search