EN
PO
Search
Close this search box.

VG í Reykjavík fer fram á að Ljósleiðarinn verði áfram í eigu borgarbúa.

Deildu 

Við skiluðum séráliti er varðar Ljósleiðarann ehf. og teljum að hann eigi að vera að fullu í eigu borgarbúa!

Hér er álitið okkar:

Í mörg ár hefur verið tekist á um eignarhald Ljósleiðarans ehf. á vettvangi stjórnmálanna í Reykjavík. Þar hafa tekist á tvö andstæð sjónarmið; annars vegar þeirra sem hafa viljað koma rekstrinum á könnu einkaaðila með þá trú að verkefnið sé best komið þar og hins vegar sjónarmið þeirra sem líta á rekstur ljósleiðarakerfisins sem mikilvægt samfélagslegt innviðaverkefni á pari við rekstur hitaveitu. Til þessa hafa Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir flokkar á hægri vængnum helst talað fyrir fyrra sjónarmiðinu en flokkar sem kenna sig við félagshyggju hafa bent á mikilvægi samfélagsrekstursins. Nú hefur samstaða síðarnefnda hópsins rofnað með þeirri niðurstöðu sem borin verður upp af meirihluta borgarstjórnar.

Afstaða Vinstri grænna hefur alla tíð verið skýr. Hreyfingin stendur gegn einkavæðingu innviða í almannaeigu. Engum blöðum er um það að fletta að sú ráðstöfun sem nú er stefnt að er skref í átt til einkavæðingar og að þeir varnaglar sem fulltrúar meirihlutaflokkanna í borginni telja sig hafa rekið muni ekki halda. Meirihlutaeigandi og ábyrgðaraðili Ljósleiðarans ehf., Reykjavíkurborg, hefur verið málaður út í horn og vegna fjarlægðar stjórnmálamanna við starfsemi og stjórn Ljósleiðarans ehf. hefur ekki tekist að afstýra þeirri atburðarás sem ráðamenn standa nú frammi fyrir. Það er fyrirsláttur að telja að móðurfélag Ljósleiðarans, Orkuveita Reykjavíkur, geti illa lagt dótturfélagi sínu til aukið fé nema með aðkomu þriðja aðila og ber hún fyrir sig lagalegri óvissu. Í gögnum rýnihópsins hefur hins vegar hefur verið sýnt fram á að lagaleg óvissa fylgir öllum leiðum og sviðsmyndum sem og fjárhagsleg áhætta. Eins verður að teljast sérstakt hvað stjórn Orkuveitunnar er mikið í mun að losa sig að hluta til undan ábyrgð á Ljósleiðaranum ehf. og koma honum í hendur einkaaðila þegar hún getur vel hlaupið undir bagga með félaginu. Það á heldur ekki að vera sjálfstætt markmið í rekstri OR að greiða arð úr félaginu til eigenda sinna heldur eiga Orkuveitan og dótturfélög hennar fyrst og fremst að sinna skyldum sínum við almenning á því þjónustusvæði þar sem fyrirtækið starfar.

Ekki verður séð fyrir endann á því hvað það kann að hafa í för með sér að hefja sölu innviða í eigu almennings á almennum hlutabréfamarkaði og áhættan af því hefur ekki verið metin sérstaklega. Það skapar ákveðinn freistnivanda stjórnmálamanna að halda áfram á þeirri vegferð, fyrst hún er þegar hafin, þar til Ljósleiðarinn ehf. hefur verið að fullu einkavæddur. Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggst alfarið gegn þessari leið og telur réttast að Ljósleiðarinnehf. haldi áfram að vera að fullu í eigu og þjónustu almennings auk þess sem stjórn OR taki þá ákvörðun að hækka hlutafé Ljósleiðarans ehf. og veiti til þess auknu fjármagni. Þótt óvissa fylgi þeirri sviðsmynd samkvæmt gögnum sem fjármálasvið Reykjavíkurborgar hefur dregið upp eftir upplýsingum frá framkvæmdastjórn Ljósleiðarans ehf. er það engu að síður svo að stjórnmálamenn eru ekki kosnir til hræðast óvissu heldur til að taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi. Sú ákvörðun sem liggur fyrir að verði tekin, að selja verðmæta og mikilvæga innviði úr félagi í almannaeigu, er ekki tekin með það fyrir augum.

Líf Magneudóttir fyrir VG í Reykjavík.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search