EN
PO
Search
Close this search box.

VG stofnmeðlimur í Progressive International: nýju alþjóðlegu bandalagi vinstri hreyfinga um allan heim

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur tekið sæti í ráðgjafaráði Progressive International, sem er nýtt alþjóðlegt bandalag vinstri hreyfinga um allan heim. VG er stofnmeðlimur í bandalaginu og verður fyrsti fundur ráðgjafaráðsins haldinn á Íslandi í haust.

Ráðgjafaráðið var kynnt í byrjun þessarar viku þegar samtökin opnuðu vefsíðu sína. Í ráðinu sitja stjórnmálamenn, aðgerðasinnar og fræðimenn frá öllum heimshornum. Meðal þeirra eru Noam Chomsky, Naomi Klein, Arundhati Roy, Yanis Varoufakis og Fernando Haddad.

Á vefsíðunni er jafnframt birt ávarp Katrínar þar sem hún fjallar um þörfina á alþjóðlegu bandalagi vinstri hreyfinga, meðal annars til að mæta uppgangi hægri öfgaafla sem þrátt fyrir þjóðernissinnaðan áróður, starfa saman þvert á landamæri. Slík öfl leitist nú við að nýta sér krísuna vegna kórónuveirunnar til að festa sig í sessi, hvort sem er til að skerða réttindi kvenna til aðgengis að þungunarrofi eða til að herða áróður gegn innflytjendum og minnihlutahópum. Á slíkum tímum sé samstaða framsækinna afla lykilþáttur. Progressive International sé kjörinn vettvangur til þess að byggja upp slíka hreyfingu, móta stefnuna og skipast á hugmyndum um samfélagslegar breytingar.

Ávarp Katrínar á ensku má finna hér

Nánari upplýsingar um Progressive International

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search