EN
PO
Search
Close this search box.

VG Varpið : Almannavarnaástand er ekki pólitískt ástand

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, er fyrsti gestur VG-varpsins. Svandís fer yfir atburðarásina sem fór af stað þegar ljóst var afleiðingar Covid-19 faraldursins yrðu alvarlegri en talið var í fyrstu. Viðbrögð stjórnvalda hér á landi hafa vakið mikla athygli á heimsvísu og ekki síst fyrir þær sakir að hér var ákveðið strax í upphafi að hlusta og fara eftir faglegum leiðbeiningum. Víðast hvar annarsstaðar hafa stjórnmálamenn átt sviðið og sú leið hugnast Svandísi ekki. Hún segir almannavarnaástand ekki pólitísk ástand, þó svo að vissulega beri hún, sem ráðherra heilbrigðismála, ábyrgð á þeim ákvörðunum sem séu teknar.

Þetta er fyrsti hlaðvarpsþáttur VG. Markmiðið með VG-varpinu er að hefja sig upp fyrir umræðu líðandi stundar og ræða frekar stóru myndina, hvert við viljum stefna. Berglind Häsler, Björg Eva Erlendsdóttir og Anna Lísa Björnsdóttir eru umsjónamenn þáttanna.

Berglind stýrir fyrsta þætti og talar við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.

Viðtalið er hér:

Almannavarnaástand er ekki pólitískt ástand

Aðgerðir stjórnvalda hér á landi vegna Covid-19 faraldursins hafa vakið mikla athygli víða um heim. Þessi ákvörðun um að hlusta á og fylgja faglegum leiðbeiningum. Þríeykið svokallaða er í forgrunni og upplýsir þjóðina um stöðu mála og þetta mælist svona líka vel fyrir. En af hverju var þessi leið farin og hvernig æxlaðist þetta allt saman þarna bak við tjöldin?

,,Í raun og veru má segja að grunnurinn sé bara mjög lífrænn.” Það hafi orðið ljóst strax í janúar að faraldur kynni að vera handan við hornið. ,,Ég settist niður með sóttvarnalækni og ég bað hann að útskýra þetta fyrir mér, hvað þetta þýddi, hverjar væru verstu mögulegu sviðsmyndir, hvaða verkefnum við gætum fundið okkur í ef allt færi mjög illa, hvernig við ættum að undirbúa okkur sem best og svo framvegis. Við sátum bara tvö og fórum yfir þetta og ég man eftir því að hafa verið svolítið slegin eftir það samtal því þá áttaði ég mig á því hvað þetta yrði mögulega stórt.”

Fram að þessu samtali heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknis hafði ráðherra vonast til að sjúkdómurinn myndi ekki berast hingað eða hann yrði mjög vægur og að fáir fengju sjúkdóminn.

,,…en eftir okkar samtal þá varð mér algjörlega ljóst að þetta myndi gerast og strax í lok janúar að þá vorum við búin að fara yfir það með Landspítalanum (…) um það að gera áætlun til að bregðast við faraldri af þessu tagi og hvað Landspítalinn þyrfti til þess að byggja upp gjörgæslurými og aðstöðu til þess að bregðast við toppnum á svona faraldri.”

Það var því strax síðla janúar sem Svandís fór með minnisblað frá Landspítalanum á fund ríkisstjórnar og hófst þar með undirbúningur undir heimsfaraldur. En planið var ekki unnið úr engu og segir Svandís að allar þær grunnstofnanir sem við reiðum okkur á hafi átt neyðaráætlun í skúffunni sinni sem hafi svo þurft að uppfæra og aðlaga til þess að bregðast við COVID-19 faraldrinum.

Svandís segir að það hafi orðið henni snemma ljóst að það væri mikilvægt upp á traustið í samfélaginu að það væru sérfræðingarnir sem væri í forgrunni þegar kæmi að því að upplýsa þjóðina um framgang mála. Okkar besta fólk í almannavörnum, sóttvörnum og auðvitað heilbrigðiskerfinu.

,,Mér varð bara mjög snemma ljóst (…) að það væri mikilvægt upp á traustið í samfélaginu að þessi forysta yrði ekki, liggur mig við að segja, skekkt eða rugluð með því að vera endilega með pólitíkina mjög sýnilega á svona tímum. Almannavarnaástand er ekki pólitískt ástand, almannavarnaástand er ástand þegar allt samfélagið þarf að snúa bökum saman og það skiptir mjög miklu máli að samfélagið lendi ekki í því að þurfa að skipa sér í fylkingar en það er um leið mjög mikilvægt að það sé mjög skýrt að það er pólitísk ábyrgð á ákvörðunum.”

Pólitíkin er sem sagt ekki í fríi og lögum samkvæmt ber heilbrigðisráðherra ábyrgð á stöðunni.

,,Ég hef tekið eftir því að í löndunum í kringum okkur þá er lagt mikið upp úr því að stjórnmálin séu mjög sýnileg og séu mjög framalega í þessu öllu. Mér hefur ekki endilega fundist það vera til góðs.”

Það hefur oft verið kallað eftir auknu gagnsæi í íslensku samfélagi. Þessir daglegu upplýsingafundir hafa svolítið gefið nýjan tón. Þau eru svo hreinskilin og heiðarleg. Virðast auka samstöðu og samkvæmt skoðanakönnunum auka traust á heilbrigðisyfirvöldum og þeim stofnunum sem sinna mikilvægum hlutverkum. Er þetta fyrirkomulag eitthvað sem við eigum eftir að sjá meira af – þá auðvitað í aðeins annari mynd?

,,Já ég held það. Ég held að við eigum eftir að draga marga jákvæða lærdóma af þessu fyrirkomulagi, það er að segja, að spyrja okkur sjálf spurninga og vera tilbúin að svara öllum spurningum strax og líka að viðurkenna það þegar við vitum ekki eitthvað,”segir Svandís. Það sé mikill lærdómur að horfa á þetta góða fólk viðurkenna þegar þau viti ekki eitthvað.

,,…og svo finnst mér líka svo aðdáunarvert þegar landlæknir byrjar alltaf sína innkomu á þessum fundum á því að segja ,,ég ætla að byrja á því að hrósa og þakka…” af því að það er eitthvað sem við getum lært af þessu, að hrósa og þakka og halda því til haga hvað það eru margir í raun og veru á hverjum einasta degi sem eru að leggja hönd á plóginn núna og í framhaldinu þá getum við lært bæði í vinnubrögðum og auðvitað bara líka í aðferðum í heilbrigðisþjónustu því það er fullt af verkefnum sem eru að verða til núna sem við getum nýtt áfram til að bæta þjónustuna.”

Nú eru margir farnir að sjá fyrir sér hvernig heimurinn verður eftir þetta allt saman. Að við séum í raun að horfa fram á breytta heimsmynd. Hvað sér Svandís fyrir sér?

,,Við erum náttúrlega stödd þar sem ég held að ekkert okkar hafi áttað sig á að við gætum verið stödd hér bara fyrir kannski 6 – 8 vikum, að það er nánast búið að slökkva á samfélögunum, þessum samfélögum þar sem allt var á ferð og flugi og svo ofsalega margt um að vera og stundum of margt.” Nú sé tími til að til að endurmeta gildi okkar og velta því fyrir sér hvað skiptir mestu máli. Svandís segir að þetta ástand eigi líka eftir að hafa áhrif á samskipti milli þjóða. Það reyni verulega á alþjóðleg bandalög og stofnanir.

,,Sumt hefur sýnt styrk sinn en annað hefur dregið það fram, því miður, að stundum eru samfélögin sér næst og hver er bara að hugsa um sig og kannski minna um nágranna sína og ég tala nú ekki um þær þjóðir sem eiga í mestu erfiðleikum þannig að mér finnst það mikið umhugsunarefni til dæmis með Evrópu að Evrópu skyldi ekki hafa tekist að ná að snúa bökum saman og vinna sem heild í þessu vegna þess að þetta er ekki verkefni þjóðríka, þetta er verkefni mannkynsins og þetta er verkefni þar sem við ættum að halla okkur að bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma en ekki að því hvaða stjórnmálaflokkur ræður för á hverjum stað og svo framvegis, sem hefur því miður verið allt of mikið verið raunin.

Þannig að við þurfum að huga að því en það er fleira, sér maður á Íslandi, að nú eru hugtök sem hafa stundum verið á dagskrá og stundum ekki eins og fæðuöryggi, matvælaöryggi, sjálfbærni og svo framvegis. Núna er þetta bara orðið verkefni dagsins í dag. Hversu mikið erum við sjálfum okkur nóg um matvæli, vistir, orku og svo framvegis? Hvað er það sem skiptir mestu máli? Hvað er það sem við getum gert sjálf og hvar erum við háð öðrum? Allt í einu er þetta eitthvað sem er orðinn partur af okkar hugsun. Ég hef trú á því að þetta eigi allt saman eftir að hafa gríðarlega mikil áhrif á verðmætamat, forgangsröðun okkar allra en þetta verður líka vonandi til þess að við áttum okkur á því hvað samneyslan skiptir miklu máli, hvað samfélag skiptir miklu máli og hvað sameiginlegur rekstur á heilbrigðisþjónustu, skólakerfi, á almannavörnum, á innviðum samfélagsins, samgöngum og fl. það er í raun það sem við sjáum best á stundum eins og þessum – úr hverju samfélagið er búið til. Það er búið til úr velferðarhugsjónum og úr skattgreiðslum sem búa til sameiginleg verðmæti sem við getum öll treyst þannig að sterkt opinbert heilbrigðiskerfi er mér mjög ofarlega í huga núna og við sjáum samfélög eins og Bandaríkin þar sem að ekki er slíkt kerfi að þau eiga í vandræðum vegna þess. Hér erum við með samþætt og öflugt kerfi sem að er heldur betur að sýna sína styrkleika á stundum sem þessari.”

Við vorum svolítið að tala um að hitt og þetta myndi breytast eftir hrun og vissulega breyttist ýmislegt til hins betra en á einhverjum furðu hraða vorum við komin í sömu neyslu og áður. Verður þetta eitthvað öðruvísi núna?

,,Verkefnið þá var svolítið annað, þá voru það fjármálakerfin og bankarnir sem höfðu gefið sig með tilheyrandi skellum á samfélögin en núna erum við í raun að tala um flóknari og samþættari ógn sem að setur okkur svolítið í þá stöðu að endurmeta fleira í okkar lífi en það eru auðvitað gríðarlega miklir kraftar sem draga okkur inn í það að vilja að hlutirnir verði óbreyttir og að allt verði aftur eins en ég vil trúa því að við notum þessa stöðu til að draga lærdóma, eins og þú ert að nefna að bæta gagnsæi, að halda því til haga, sem við höfum auðvitað alltaf vitað í okkar hreyfingu, mikilvægi sterks opinbers heilbrigðiskerfis til dæmis og ég held að þau sem hafa talað um ,,báknið burt” þurfi að endurmeta svolítið sín slagorð.”

Veiran tekur toll og í raun er allt í uppnámi og margir eiga um sárt að binda. En það er svolítið merkilegt með mannskepnuna, þessi viðleitni til að halda í jákvætt hugarfar – og það í miðri krísu. Listamenn finna list sinni nýjan farveg og samfélagsmiðlarnir hafa sjaldan verið skemmtilegri og íslenskir fjölmiðlar halda okkur upplýstum og dæla í okkur menningar- og skemmtilefni. Það er eitthvað heilandi við svona hugarfar og þessa samstöðu.

,,Algjörlega og svo öfugsnúið sem það nú er þá eru hamfarir og erfiðleikar alveg sérstaklega öflugur jarðvegur fyrir skapandi hugsun við sjáum það bara í gegnum söguna að skapandi fólk, skapandi listamenn eru oft þeir sem að gefa súrefni inn í samfélögin þegar þau eru í kreppu og vanda eins og þau eru í núna.”

Svandís segir mikið afl fólgið í listinni á svona flóknum tíma sem og samheldninni.

,,Það er ofsalega mikil hlýja úti í samfélaginu á þessum furðulegu tímum og það er líka mjög mikil næring því maður veit að það er það sem að límir samfélagið saman, hjartahlýja og vinátta.”

Fram til þessa, hver er mikilvægasti lærdómurinn sem Svandís, hefur dregið af þessu ástandi?

,,Við erum náttúrlega alveg í miðjum klíðum akkúrat núna, minn kannski mikilvægasti lærdómur er sá, sem að ég hef haft að leiðarljósi alla tíð, er mikilvægi þess að hlusta. Ég held að það sé það sem við lærum af þessu og þegar um er að ræða stór og flókin viðfangsefni að þá er engin einn með svörin við öllu og að þegar viðfangsefnin eru flókin að þá þurfum við að leggja okkar að mörkum. Mér hefur líka fundist mjög dýrmætt að kynnast því hvað heilbrigðisþjónustan okkar er öflug og hvað það er alveg ótrúlega mikið af kláru og vel menntuðu fólki sem er út um allt land að vinna að því að tryggja heilbrigði þjóðarinnar og að því að það hefur nú stundum verið talað um það hvað heilbrigðiskerfið okkar er ómögulegt að það er alveg ofsalega sterkt og hefur gríðarlega mikið afl og það er dásamlegt að vera í þeirri stöðu að vera heilbrigðisráðherra þegar þetta er öllum svo skýrt eins og núna er. En það sem ég tek með mér út úr þessu er væntanlega líka það hvað þessi sameiginlegu samfélagsverðmæti eru í raun grundvöllur alls en svo ætla ég líka að taka það með mér að hrósa og þakka.”

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search