Search
Close this search box.

VG vill taka á móti fleira fólki á flótta

Deildu 

„Fjöldi fólks á flótta á heimsvísu hefur meira en tvöfaldast á tíu árum og því hefur fylgt mikið umrót hvarvetna þegar kemur að málefnum þeirra. Frammi fyrir jafn risavöxnum áskorunum og loftslagsvánni og fjölgun fólks á flótta (sem ekki eru ótengd málefni), er auðvelt að fyllast vanmáttartilfinningu, en það hjálpar okkur ekki neitt. Það eina sem hægt er að gera er að halda áfram, skref fyrir skref að stefna í rétta átt. Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá því í gær að ráðist yrði í breytingar á hæliskerfi sambandsins, m.a. með því að afnema Dyflinnarreglugerðina og innleiða í stað hennar nýtt samevrópskt móttökukerfi fyrir flóttafólk. Ursula kallaði eftir því að Evrópa ynni saman að því að bregðast við flóttamannavandanum. Það er mikilvægt að taka eigi þetta kerfi til endurskoðunar og vonandi næst samstaða um breytingar sem munu bæta stöðu fólks á flótta og þar mun Ísland leggja sitt af mörkum.

Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta og er það markmið sett fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Um þessi mál er sjaldan fjallað nema þegar einstök mál eru rædd. En mikilvægt er að skoða hver þróunin hefur verið á undanförnum árum þegar rætt er um stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Af málum sem er lokið á þessu ári hjá þeim sem sótt hafa um vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi hafa rúm 60% umsókna verið samþykkt. Það eru 368 einstaklingar, fjölskyldur og börn sem hafa hlotið vernd hér á þessu ári. Ef eingöngu er horft til þeirra mála sem hafa fengið efnismeðferð þá hafa 79% umsókna verið samþykkt. Umsóknum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum en 2019 var fékkst niðurstaða í 1123 málum. Í fyrra fengu 376 einstaklingar vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi sem var 33% afgreiddra umsókna samanborið við 10% árið 2017. Þar með er þó ekki öll sagan sögð en þessi tölfræði á einungis við um mál sem lokið er hjá Útlendingastofnun. Mál sem fara á borð kærunefndar útlendingamála eru því ekki hér meðtalin, en með þeim hækkar fjöldi þeirra sem hlotið hafa vernd töluvert. Til að mynda hlaut 531 einstaklingur alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra þegar horft er bæði á mál hjá Útlendingastofnun og kærunefndinni.

Þessi mál snúast auðvitað um fólk og því verðum við að gæta þess að láta umræðuna ekki snúast um tölur á blaði. Þessar tölur geta þó sagt okkur hvort við séu á réttri leið, hvort að þau skref sem við höfum tekið séu að skila árangri fyrir fólk. Hvort við séum að taka á móti fleira fólki á flótta eins og við einsettum okkur þegar stjórnarsáttmálinn var settur saman á árinu 2017. Töluverðar breytingar hafa orðið á bæði regluverkinu og framkvæmd þess hér á Íslandi síðastliðin ár, meðal annars með nýjum þverpólitískum útlendingalögum sem samþykkt voru 2016. Þó að framkvæmdin hafi batnað er eigi að síður nauðsynlegt að hún sæti sífelldri endurskoðun. Umræða síðustu daga sýnir að ríkur vilji er í samfélaginu til að gera betur í þessum málum og það er verkefnið fram undan.“

Katrín Jakobsdóttir, facebookfærsla.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search