Search
Close this search box.

Við eigum að skipta jafnt

Deildu 

Strand­veiðipott­ur­inn tæmd­ist fyr­ir helgi, fyrr en nokkru sinni áður, þrátt fyr­ir að aldrei hafi stærri hluta af leyfi­leg­um þorskafla verið ráðstafað í hann. Það er afar miður að ekki náðist að tryggja 48 daga til strand­veiða þetta sum­arið. Í þetta hef­ur stefnt í nokk­urn tíma og al­veg ljóst, miðað við hvernig veiðarn­ar hafa gengið, að mörg þúsund tonn til viðbót­ar hefði þurft til að tryggja veiðar í ág­úst, tonn sem ekki eru til ef fara á að ráðgjöf Hafró, sem ég hyggst gera.

Þrátt fyr­ir að margt hafi gengið vel í sum­ar að því er viðkem­ur strand­veiðum er það þó svo að verðmæt­um hef­ur ekki verið skipt á rétt­lát­an hátt. Þangað til hægt er að tryggja að all­ir fái 48 daga þarf að passa að því sem er til skipt­anna sé skipt á rétt­lát­an hátt milli strand­veiðisjó­manna. Til að koma í veg fyr­ir að það end­ur­taki sig næsta sum­ar hyggst ég leggja fram frum­varp í vet­ur sem heim­il­ar það að nýju að skipta þeim veiðiheim­ild­um sem ráðstafað er til strand­veiða niður á svæði í kring­um landið.

Jöfn skipt­ing

Frá upp­hafi hef­ur það verið mark­mið að þeim tak­markaða afla sem er til ráðstöf­un­ar sé skipt sem jafn­ast, þannig eru tak­mörk á því hvað hver bát­ur má landa miklu, til þess að þeir sem eiga stærstu og bestu bát­ana fái ekki meira en aðrir. Bát­arn­ir fá jafn marga daga til þess að veiða (12 daga í mánuði) og því væri niðurstaðan jöfn ef það væru ekki aðrir þætt­ir sem hafa áhrif á skipt­ing­una, m.a. veður og fisk­gengd. Stjórn­völd hafa ekki áhrif á veðrið og geta því lítið gert í því þegar bræl­ur koma í veg fyr­ir að bát­ar kom­ist á sjó. En fisk­gengd er ekki eins duttl­unga­full og veðrið. Það er staðreynd að fisk­gengd er mis­jöfn milli landsvæða og það er rót þess órétt­læt­is sem ég sé í skipt­ingu pott­anna í dag. Sum landsvæði eiga mest und­ir því að geta veitt seinni hluta sum­ars; tími sem nú er runn­inn þeim úr greip­um, tími þegar þorsk­ur­inn er stærst­ur og verðmæt­ast­ur.

Verðmæt­in skipta mestu máli

Tonn af stór­um þorsk­um er mun verðmæt­ara en tonn af litl­um þorsk­um. Af því leiðir að strand­veiðisjó­menn og fjöl­skyld­ur þeirra á ákveðnum svæðum hafa minna upp úr krafs­inu. Mér finnst mik­il­vægt að við hlust­um á þá strand­veiðisjó­menn sem verða fyr­ir þess­ari skerðingu. Við verðum að skipta þessu jafn­ar. Þannig mætti hugsa sér að þegar upp­lýs­ing­ar liggja fyr­ir um hversu marg­ir eru skráðir á hvert strand­veiðisvæði þá sé afl­an­um skipt jafnt á þau svæði eft­ir fjölda báta. Slíkt er ein­falt í fram­kvæmd. Ef 50% báta eru á einu svæði, þá fá þeir 50% af heim­ild­un­um. Með þeim hætti væri tryggt að aðstæður eins og í dag skap­ist ekki aft­ur, að stór svæði verði af verðmæt­asta veiðitím­an­um vegna þess að ekki var tekið til­lit til fisk­gengd­ar. Og að all­ir fái sem jafn­ast­an hlut.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search