Nú er rúmur mánuður síðan greint var frá fyrsta COVID-19 smitinu hér á landi. Á ótrúlega stuttum tíma hefur líf okkar breyst. Nú reynum við öll að hlýða Víði, framboð á flugi til landsins er eins og um miðbik síðustu aldar og ferðaþjónustan, ein stærsta starfsgrein landsins, er í frosti. Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á efnahagskerfi heimsins og mun það taka tíma að koma daglegu lífi okkar á rétt ról aftur. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sent skýr skilaboð um að hún muni gera það sem þarf til þess að koma í veg fyrir að fólk lendi í efnahagsörðugleikum. Hið opinbera mun standa með fólki og fyrirtækjum og þannig verður skaðinn sem minnstur.
Hluti af þeim aðgerðum eru svokölluð brúarlán sem veitt verða til fyrirtækja til að komast í gegnum storminn án þess að fjöldagjaldþrot verði. Málið hefur tekið breytingum í meðferð fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og það verður tryggt að fyrirtæki sem fá ríkisábyrgð á hluta lána sinna megi ekki greiða sér út arð eða kaupa eigin hlutabréf á meðan þau njóta ríkisábyrgðar. Þá mun sérstök nefnd hafa eftirlit með framkvæmd brúarlána. Þannig verður tryggt að svartir sauðir misnoti ekki almannafé og framkvæmdin verður sanngjörn.
Samhliða þessu var fjárlaganefnd með til umfjöllunar sérstakt fjárfestingaátak. Samtals mun ríkið og opinber fyrirtæki fjárfesta fyrir 25 milljarða aukalega á þessu ári. Þannig munum við skapa störf og fjárfesta í innviðum okkar. Fyrir var búið að ákveða framkvæmdir fyrir rúma 80 milljarða króna á þessu ári. Valin voru verkefni sem sérfræðingar töldu gerlegt að koma í verk á árinu, þar sem hönnun væri lokið og svo framvegis.
Innspýting í heilbrigðiskerfið
Af þessum fjármunum fer einn milljarður í mikilvægar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu okkar. Viðbyggingu við Grensásdeild Landspítalans verður flýtt og viðhaldi flýtt víða um land. Áður voru ákveðnar framkvæmdir fyrir 5 ma. kr. við Nýja Landspítalann. Aldrei hefur verið jafn augljóst hversu mikilvægt opinbert heilbrigðiskerfi er og því er mikilvægt að horfa til framtíðar og styrkja það.
Þá stendur einnig til að ráðast í ýmis samgönguverkefni, meðal annars stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli og nýja akbraut á Egilsstaðaflugvelli. Þetta eru tímabærar framkvæmdir sem auka öryggi á innanlandsflugvöllunum okkar.
Það er svo ekki hægt að tala um mikilvægar samfélagslegar framkvæmdir án þess að tala um umhverfismál. Til stendur að hraða nauðsynlegri uppbyggingu til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum og þá verður ráðist í aukið átak til kolefnisbindingar. Mikilvæg og græn skref á vakt Vinstri grænna.
Við munum ráðast í uppbyggingu á friðlýstum svæðum, m.a. með göngustígum, bílastæðum og öðrum innviðum. Þannig mun aðstaða á Þingvöllum og við Jökulsárlón stórbætast. Þannig mun upplifun ferðamanna vera þeim mun betri þegar ferðaþjónustan tekur við sér á ný.
Þá eru ótaldar aðgerðir á sviði landbúnaðar, nýsköpunar, menningar og íþrótta svo dæmi sé tekið.
Það er mikilvægt að muna að það ástand sem við lifum nú er tímabundið. Það mun einn daginn taka enda og hversdagurinn tekur aftur við. Þá munum við ekki hafa setið auðum höndum, heldur munum við sem samfélag koma tvíefld til baka.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.