Search
Close this search box.

Við lok kjörtímabils

Deildu 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem nú situr var mynduð þvert á hið pólítíska svið, frá vinstri til hægri. Ríkisstjórnin hafði skýra sýn um uppbyggingu velferðarkerfisins og umbætur á mörgum sviðum sem hefðu það markmið að á Íslandi yrði gott að lifa, fyrir unga sem aldna. Þegar litið er yfir kjörtímabilið sem nú er að renna sitt skeið getum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði verið stolt af árangri ríkisstjórnarinnar. Verkefni sem unnið hefur verið að og kláruð á tímabilinu endurspegla vel grunnstoðirnar í stefnu VG; umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlega friðarhyggju og félagslegt réttlæti og eru til þess fallin að byggja hér upp gott samfélag, þar sem jöfnuður ríkir.

Mig langar til að nefna nokkur verkefni sem hafa verið unnin á kjörtímabilinu. Í heilbrigðismálum hefur heilbrigðisstefna verið samþykkt, 140 ný hjúkrunarrými verið byggð og aðstaða bætt í enn fleirum, greiðsluþátttaka sjúklinga hefur verið lækkuð verulega, framlög til heilsugæslunnar aukin um 25% og framkvæmdir fjármagnaðar og hafnar við nýtt þjóðarsjúkrahús.Í jafnréttismálum má nefna að ný löggjöf um þungunarrof, sem ég lagði fram á Alþingi, var samþykkt, en lögin tryggja sjálfsforræði og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Einnig má nefna þá breytingu sem gerð hefur verið að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður mega núna skrifa upp á getnaðarvarnarlyf. Réttur til að skilgreina eigið kyn hefur verið tryggður með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði og fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í heilt ár.Lögð hefur verið áhersla á umhverfismál á kjörtímabilinu.

Stórátak var gert í friðlýsingum svæða, fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin gegn loftslagsvánni unnin og Loftslagsráð og Loftslagssjóður stofnuð. Innleiðing hringrásarhagkerfisins hófst af krafti, m.a. með breytingum á lögum um úrgangsmál og hringrásarhagkerfi sett af stað. Mikilvægar aðgerðir í lýðræðismálum hafa orðið að veruleika á tímabilinu. Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis hefur verið styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndarstarf og þingflokka, skattrannsóknir efldar og mörk sett á eignarhald á landi með nýjum jarðalögum, svo nokkur dæmi séu tekin.

Ef við ræðum velferðarmál sérstaklega þá má nefna að hlutdeildarlán fyrir nýtt fólk á húsnæðismarkaði voru sett á, en þau geta hjálpað tekjulágum fyrstu kaupendum að ná kröfu um fyrstu útborgun, 35% lækkun á skerðingu örorkulífeyrisþega gagnvart atvinnutekjum varð, 75.000 kr. hækkun á frítekjumarki aldraðra og 35% hækkun grunnatvinnuleysisbóta á tímabilinu. Ríkisstjórn sem Vinstrihreyfingin grænt framboð leiðir er besta mögulega ríkisstjórnin, fyrir samfélagið allt. Veljum Vinstri græn.

Við lok kjörtímabils, birtist í Morgunblaðinu í dag, 26. ágúst 2021.

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search