Nú líður að lokum sjöttu viku COVID-19 faraldursins á Íslandi. Faraldurinn hefur sannarlega tekið á, reynt gríðarlega á sjúklinga, heilbrigðiskerfið og samfélagið allt.
Það hefur verið aðdáunarvert að sjá undanfarnar vikur hvernig heilbrigðisstarfsfólk og kerfið allt hefur náð að taka utan um þetta gríðarstóra verkefni af æðruleysi og styrk, með þekkingu og reynslu að leiðarljósi og undir styrkri leiðsögn þríeykisins. Ekkert fum, ekkert fát, fyrst og fremst gengið í verkin og þau unnin.
Það má ætla að við séum að nálgast hámark faraldursins í smitum talið, í auga stormsins, og að næstu tvær vikur verði sérlega erfiðar fyrir heilbrigðiskerfið. Nú fara páskar í hönd, og má segja að Dymbilvikan beri nú nafn með rentu sem aldrei fyrr.
Verum lausnamiðuð
Þá er sérlega gaman að sjá þau ljós sem þó skína. Við sjáum lausnamiðað fólk út um allt, fólk sem „hittir“ fjölskyldu og vini í símum og skjáum. Við sjáum eldra fólk taka í þjónustu sína tækni sem var þeim framandi og yngra fólk taka skref í tæknimálum sem það hafði ekki áður stigið.
Á hátíðum og í fríum hefur það verið lenska að menn hitti fjölskyldur sínar og geri sér glaðan dag. Slíkur hittingur verður ekki mögulegur hjá þeim sem dvelja á heilbrigðistofnunum eða búa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Einnig mun margt eldra fólk og fjölskyldur þeirra velja að hittast ekki til að forðast smit. Við þær aðstæður er enn meiri þörf en áður á að við finnum leiðir til að „hittast“ samt. Hringjum, notum myndsíma, tölvur og samskiptaforrit. Komum fólkinu okkar, og okkur sjálfum, á óvart.
Við munum komast í gegnum storminn. Förum þá ferð saman og styðjum þá sem þurfa þess með. Gefum hvort öðru fallega kveðju og bros. Gleðilega páska.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna.