Search
Close this search box.

Við stöndum vörð um velferð

Deildu 

Það er ábyrgðarhlutverk ríkisins að styðja við samfélagið og verður ríkissjóður áfram nýttur til þess. Eins og við öll vitum hefur á síðustu árum ýmislegt gengið á og efnahagsmálin verið talsvert flókin. Við erum í betri stöðu en mörg lönd eftir heimsfaraldur en samt eru blikur á lofti og þörf á aðhaldi.

Nýtt fjárlagafrumvarp tekur að sjálfsögðu mið af þeim efnahagslegu áskorunum sem stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir á síðustu árum. Þrátt fyrir það er, eins og áður, fullt tilefni til bjartsýni. Það hefur gengið með miklum ágætum að koma samfélaginu aftur af stað eftir samdrátt vegna heimsfaraldurs og hagkerfið hefur tekið hraðar við sér en við gerðum ráð fyrir. Það eru stóru tíðindin í nýja fjárlagafrumvarpinu. Útflutningstekjur hafa aukist með stór aukinni komu ferðamanna, langt umfram spár. Þá hafa tekjur af öðrum útflutningsgreinum aukist vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á matvælum.

Skuldastaða heimilanna er  með ágætum og kaupmáttur hefur jafnt og þétt verið að aukast. Þó er mikilvægt að stemma stigu við verðbólgunni. Þrátt fyrir  að verðbólga á Íslandi sé lægri en í Evrópu um þessar mundir kemur hún fram á annan hátt og hefur meiri áhrif á húsnæðiskostnað hér á landi. Því er ljóst að aðgerðir stjórnvalda í sumar til handa heimilinum til að stemma stigu við verðbólgu, t.a.m. með hækkun húsnæðis- og barnabóta og fyrirliggjandi hækkun örorkulífeyris upp á 9%, hafa og munu skila sér í bættum fjárhag heimilanna.

Áfram er gert er ráð fyrir minnkandi greiðsluþátttöku sjúklinga og vinnu við uppbyggingu í geðheilbrigðismálum. Loks vil ég segja að það er mikið fagnaðarefni hve hratt atvinnuleysi hefur lækkað og er það nú undir meðaltali síðustu 20 ára. Ef fram fer sem horfir verður hagvöxtur á Íslandi einna mestur á meðal aðildarríkja OECD á næstu árum, það er því fullt tilefni til þess að horfa björtum augum fram á veginn og standa áfram vörð um velferð og kjör fólks.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search