PO
EN

Við þurfum að gera meira með minna

Deildu 

„Mikilvægt er að forgangsraða matvælaframleiðslu framtíðarinnar og íhuga hvernig við getum fætt sem flesta með lágmarksauðlindum á sjálfbæran hátt. Við þurfum einfaldlega að gera meira með minna“.

Þetta var meðal þess sem fram kom í ávarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra þegar Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR) 2023 voru kynntar á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Hörpu. Ráðherra taldi ráðleggingarnar mikilvægt innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað á milli vísinda og matvælaframleiðslu til að geta tekist á við þá sameiginlegu áskorun sem fylgir sjálfbærri þróun.

„Í dag höfum við séð niðurstöður yfirgripsmikils vísindastarfs” sagði ráðherra. „Þessar niðurstöður eru mikilvægar, þær leiðbeina okkur með stefnu og ákvarðanir um framleiðslu matvæla, lýðheilsu og umhverfi. Það er mikilvægt að hafa í huga að tilgangur NNR er að veita ráðgjöf um matvælaneyslu, ekki um framleiðsluaðferðir. NNR-skýrslan undirstrikar mikilvægi þess að nýta vísindi til að bæta framleiðsluaðferðir okkar í matvælum.“

Matvælaráðherra lagði að auki áherslu á mikilvægi þess að hvert og eitt land myndi leggja sjálfstætt mat á næringarleiðbeiningarnar út frá aðstæðum m.t.t. fæðuöryggis og næringar. Útgáfa þessarar nýju útgáfu NNR væri mikilvægt ákall til stjórnvalda og atvinnugreina um að ná auknum árangri á sviði umhverfismála.

Í Nýju norrænu næringarráðleggingunum er að finna eina mestu uppfærslu á næringarráðleggingum Norðurlanda sem gerð hefur verið frá því að þær voru fyrst gefnar út fyrir 40 árum. Í fyrsta sinn er nú einnig tekið mið af umhverfisþáttum og heilsuáhrifum, en um er að ræða vísindalegan grundvöll næringarviðmiða og ráðlegginga um mataræði á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Sérfræðingahópur með fulltrúum frá heilbrigðis- og matvælayfirvöldum frá öllum Norðurlöndunum vann í rúm fimm ár að verkefninu.Nýju norrænu næringarráðleggingarnar má skoða hér.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search